Ótrúlegur sigur Hamiltons og Piquet í fyrsta sinn á pall

Piquet ánægður með fyrstu verðlaunin í formúlu-1. Hamilton klappar honum …
Piquet ánægður með fyrstu verðlaunin í formúlu-1. Hamilton klappar honum lof í lófa. ap

Sigur Lewis Hamiltons hjá McLaren í þýska kappakstrinum rétt í þessu verður sjálfsagt lengi í minnum hafður. Og unnendur Renault muna hann einnig sakir þess að Nelson Piquet varð í öðru sæti og náði þar með fyrsta verðlaunasæti liðsins á árinu. Þökk sé herfræði sem færði hann úr 17. sæti á rásstað í það fyrsta er um 15 hringir voru eftir.

Þegar 16 hringir voru eftir virtist McLaren hafa gert herfileg herfræðimistök með því að bíða með seinna þjónustustopp Hamiltons í stað þess að taka það er öryggisbíll var í brautinni vegna skelfilegs slyss Timo Glock hjá Toyota.

Hamilton var í forystu er hann fór inn að bílskúr McLaren, en eigi mikilli þar sem saman dró með honum og keppinautunum vegna öryggis bílsins. Kom hann út aftur í fimmta sæti og möguleikar hans virtust í besta falli vera verðlaunasæti. Von bráðar komst hann fram úr liðsfélaga sínum Heikki Kovalainen og Nick Heidfeld hjá BMW átti eftir að taka sitt seinna stopp svo brátt var Hamilton orðin þriðji.

Sótti hann sem óður væri og leið ekki á löngu þar til hann hafði dregið Felipe Massa á Ferrari uppi. Tók hann léttilega fram úr honum og þá var bara Piquet eftir í sigtinu, en nýliðinn frá Brasilíu naut þess að hafa  forystu í kappakstrinum í um 10 hringi. Hann átti heldur ekkert svar þegar Hamilton dró hann uppi en hélt einbeitingunni sem eftir var í mark og uppskar annað sætið.

Piquet mistókst í tímatökunum í gær og liði hans til mikilla vonbrigða varð hann aðeins í 17. sæti. Lagði því upp með þá áætlun að stoppa aðeins einu sinni og var nýbúinn að tanka og fá bensín er óhapp Glocks átti sér stað.

Fjöðrun brotnaði hjá Glock

Fjöðrunarbúnaður hægra afturdekks Glock brotnaði með þeim afleiðingum að hann þau yfir brautina og skall af miklu afli á stjsórnborðsveggnum við upphafskafla brautarinnar. Tættist Toyotan þar enda höggið mikið og rann síðan yfir brautina aftur og staðnæmdist utan hennar.

Glock vankaðist við höggið og var fluttur á sjúkrahús en fyrstu fregnir benda til þess að hann séómeiddur.

Svo einkennilegt sem það hljómar þá hljóp mikið fjör í kappaksturinn vegna slyss Glocks. Keppnisáætlunum var breytt í einni svipan vegna öryggisbílsins og strunsuðu flestir ökumanna beint inn í bílskúrareinina þegar hún var opnuð.

Hamilton tekur forystu

Við það riðlaðist röð keppenda mjög og eftir það sáust mörg tilþrifin er ökumenn gerðu tilraunir til framúraksturs. Sönn skemmtan eftir fremur dauflegan fyrri helming sem einkenndist af ótrúlegum yfirburðum Hamiltons

Bæði verður að hrósa færni hans á brautinni og einnig virðist McLaren hafa tekist að bæta bíl sinn. Alla vega í samanburði við Ferraribílinn sem hafði algjöra yfirburði í Hockenheim þegar síðast var keppt þar en mátti sín ekki mikils nú.

Þetta er annað mótið í röð sem Hamilton vinnur með miklum glans. Hefur hann með sigrinum tekið forystu í keppninni um titil ökuþóra. Þótt hún sé kannski naum þá eru yfirburðir hans og bílsins í tveimur síðustu mótum með þeim hætti að kalt vatn hlýtur nú að renna milli skinns og hörunds í bílskúrum Ferrari.

Hamilton er með 58 stig, Massa 54 og Räikkönen 51, en þeir voru jafnir fyrir kappaksturinn, allir með 48 stig. Kubica er skammt á eftir Räikkönen, með 48 stig í fjórða sæti. Liðsfélagi hans Heidfeld er fimmti með 41 stig og Kovalainen sjötti með 28.

Keppni bílsmiða harðnar, einkum um annað og fjórða sæti

Með úrslitunum hefur McLaren minnkað bilið í BMW í keppni bílsmiða um 7 stig en um aðeins þrjú stig í Ferrari, sem er efst með 105 stig gegn 89 stigum BMW og 86 stigum McLaren.

Keppnin um fjórða sætið hefur hins vegar harðnað mjög og að komast í algleyming með öðru sæti Piquet. Toyota fékk ekki stig og er í fjórða sæti með 25 stig, Red Bull er með 24 stig, hlaut sömuleiðis engin stig í dag. Renault er svo með 23 stig og nálgast því mjög það markmið sitt að hafna í fjórða sæti í keppni bílsmiða í ár.

Úrslit kappakstursins í Hockenheim

Staðan í stigakeppni ökumanna og bílsmiða

Piquet í forystu á Renault í Hockenheim í dag.
Piquet í forystu á Renault í Hockenheim í dag. reuters
Piquet í forystu á Renaultinum undir lokin en Hamilton að …
Piquet í forystu á Renaultinum undir lokin en Hamilton að draga á hann. reuters
Hamilton ánægður með fyrsta sætið í Hockenheim.
Hamilton ánægður með fyrsta sætið í Hockenheim. reuters
Norbert Haug, íþróttastjóri Mercedes, fagnar með Hamilton.
Norbert Haug, íþróttastjóri Mercedes, fagnar með Hamilton. reuters
Piquet fagnar fyrsta verðlaunasæti á ferlinum en hann ók Renaultinum …
Piquet fagnar fyrsta verðlaunasæti á ferlinum en hann ók Renaultinum til annars sætis í Hockenheim. ap
Piquet, Briatore og Alonso blása kerti á afmælistertu í Hockenheim. …
Piquet, Briatore og Alonso blása kerti á afmælistertu í Hockenheim. Ökumennirnir eiga báðir afmæli næstu daga. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert