Vettel yngsti ráspólshafi sögunnar og fyrsti póll Minardi

Vettel fagnar ráspólnum í Monza.
Vettel fagnar ráspólnum í Monza. ap

Sebastian Vettel hjá Toro Rosso var í þessu að vinna sinn fyrsta ráspól á ferlinum er hann varð hlutskarpastur í tímatökum ítalska kappakstursins í Monza. Úrhellisrigning var og úrslitin mjög óvænt. Kimi Räikkönen og Lewis Hamilton féllu úr leik í annarri lotu.

Vettel er með afrekinu yngsti ökuþór sögunnar til að vinna ráspól í formúlu-1. Það tekst honum í hröðustu braut sem keppt er á í formúlunni. Gamla metið átti Fernando Alonso hjá Renault, sem var einna fyrstur til að óska Vettel til hamingju með pólinn í Monza.

Í öðru sæti varð Heikki Kovalainen hjá McLaren og Mark Webber á Red Bull skaust upp í þriðja sætið á síðustu sekúndum. Velti hann úr því Sebastien Bourdais hjá Toro Rosso, sem engu að síður náði sínum besta tímatökuárangri með fjórða sætinu.

Með þessu á Red Bull-fyrirtækið þrjá af fyrstu fjórum bílunum á rásmarkinu í Monza á morgun. Toro Rosso er hið gamla Minardilið og flestir starfsmenn þess nú  hinir sömu og hjá Minardi. Fögnuðu vélvirkjar liðsins árangrinum mjög, og sérstaklega ráspólnum, en í þeirri stöðu hafa þeir aldrei verið áður, að eiga fyrsta bíl á rásmarki.

Rigning var meðan á tímatökunni stóð og herti í úrkomuna er á leið. Ökumenn áttu erfitt með að fóta sig á hálli brautinni en víða safnaðist vatn í polla. Var það því fljótt hálfgert happdrætti hvernig röðin á rásmarkinu myndi raðast. 

Í fyrstu lotu féllu báðir Hondabílarnir úr leik, einnig Nelson Piquet hjá Renault, Kazumi Nakajima hjá Williams og Adrian Sutil hjá Force India. Og það var ekki fyrr en undir lok lotunnar sem Ferrariþórarnir tveir komust áfram í aðra umferð.

Í annarri lotu áttu Räikkönen og Hamilton í mestu erfiðleikum að fóta sig á brautinni og sneru bílum sínum eða flugu út úr henni. Gátu þó ætíð haldið áfram, en urðu að sætta sig við að leggja af stað í 14. og 15. sæti á morgun. Sömuleiðis sat Robert Kubica á BMW eftir í annarri lotu, en hann snarsneri bílnum er hann freistaði í síðasta sinn að komast áfram.

Hamilton átti í miklum vandræðum í brautinni sem byrjuðu á því að hann freistaði gæfunnar með því að aka á millidekkjum í byrjun annarrar lotu. Það misheppnaðist gjörsamlega og þótt hann skipti aftur yfir á full regndekk  fékk hann aldrei rönd við reist eftir það. 

Massa komst heldur ekki í lokaumferðina fyrr en vel var liðið á aðra lotu og hékk yfir honum fallöxin allt til loka lotunnar. Í þriðju og síðustu umferð bætti hann sig hins vegar jafnt og þétt og varð sjötti. Hefur því keppni með átta bíla milli sín og Hamiltons á morgun.

Fernando Alonso á Renault hefur keppni áttundi eða milli Toyotaþóranna Jarno Trulli og Timo Glock.

Giancarlo Fisichella hjá Force India hefur ástæðu til að fagna því hann komst í fyrsta sinn á árinu í aðra umferð tímatöku. Hefur hann keppni í tólfta sæti.

Útlit er fyrir rigningu þegar kappaksturinn fer fram á morgun og miðað við tíðindasamar tímatökur má allt eins búast við að fjörlegt verði í sjálfri keppninni.

Niðurstöður tímatökunnar voru sem hér segir:

Röð Ökuþór Bíll Lota 1 Lota 2 Lota 3
1. Vettel Toro Rosso 1:35.464 1:35.837 1:37.555
2. Kovalainen McLaren 1:35.214 1:35.843 1:37.631
3. Webber Red Bull 1:36.001 1:36.306 1:38.117
4. Bourdais Toro Rosso 1:35.543 1:36.175 1:38.445
5. Rosberg Williams 1:35.485 1:35.898 1:38.767
6. Massa Ferrari 1:35.536 1:36.676 1:38.894
7. Trulli Toyota 1:35.906 1:36.008 1:39.152
8. Alonso Renault 1:36.297 1:36.518 1:39.751
9. Glock Toyota 1:35.737 1:36.525 1:39.787
10. Heidfeld BMW 1:35.709 1:36.626 1:39.906
11. Kubica BMW 1:35.553 1:36.697
12. Fisichella Force India 1:36.280 1:36.698
13. Coulthard Red Bull 1:36.485 1:37.284
14. Räikkönen Ferrari 1:35.965 1:37.522
15. Hamilton McLaren 1:35.394 1:39.265
16. Barrichello Honda 1:36.510
17. Piquet Renault 1:36.630
18. Nakajima Williams 1:36.653
19. Button Honda 1:37.006
20. Sutil Force India 1:37.417
Vettel er yngsti ökuþór sögunnar til að vinna ráspól.
Vettel er yngsti ökuþór sögunnar til að vinna ráspól. ap
Þeir hefja keppni fremstir á morgun (f.v.), Webber, Vettel og …
Þeir hefja keppni fremstir á morgun (f.v.), Webber, Vettel og Kovalainen. ap
Vettel í tímatökunni í Monza. Hann setti hraðasta hring í …
Vettel í tímatökunni í Monza. Hann setti hraðasta hring í byrjun lokalotunnar. ap
Massa með ráðgjafa sínum, Michael Schumacher, í Monza.
Massa með ráðgjafa sínum, Michael Schumacher, í Monza. ap
Hamilton réði ekki við McLarenbílinn í rigningunni í Monza.
Hamilton réði ekki við McLarenbílinn í rigningunni í Monza. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert