Hamilton vinnur sinn fyrsta sigur sem heimsmeistari

Hamilton sigrar í Búdapest í dag.
Hamilton sigrar í Búdapest í dag. reuters

Lewis Hamilton hjá McLaren var í þessu að vinna ungverska kappaksturinn. Er það hans fyrsti sigur sem heimsmeistari ökumanna í formúlu-1 og tíundi sigurinn á ferlinum. Annar varð Kimi Räikkönen hjá Ferrari og þriðji Mark Webber hjá Renault. Ráaspólshafinn Fernando Alonso hjá Renault féll úr leik vegna bilunar.

Hamilton hóf keppni í fjórða sæti en vann sig fljótt upp í annað sætið og ók allan tímann hnökralaust. Hann tók forystu er ráspólshafinn Fernando Alonso hjá Renault tók sitt fyrsta þjónustustopp eftir 12 hringi.

Bilun varð í felguró hægra megin að framan í stoppinu og sprakk dekkið strax eftir að Alonso kom út í brautin á ný. Og áður en hann komst heim að bílskúr flaug hjólið undan bílnum. Hætti hann keppni fljótlega og sagði það súrt að hafa ekki getað nýtt sér ráspólinn, hinn fyrsta hjá Renault frá 2006, til topp árangurs.

Räikkönen sætir rannsókn

Sebastian Vettel hjá Red Bull féll einnig úr leik vegna bilunar í fjöðrunarbúnaði. Í ræsingunni skullu þeir Räikkönen saman við fyrstu beygju og kann bilunin að stafa af samstuðinu. Dómarar kappakstursins sögðust myndu rannsaka atvikið að keppni lokinni. Vettel hóf keppni í öðru sæti en tók illa af stað og missti hvern bílinn af öðrum fram úr sér.

Með þriðja sætinu og brottfalli Vettels kemst Webber upp fyrir liðsfélaga sinn í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra. Og um leið minnkaði hann forystu Jenson Button hjá Brawn um fjögur stig.

Hraðaskortur háði Button

Button átti í erfiðleikum með dekkin í kappakstrinum og  glímdi við hraðaskort. Hann vann sig á endanum upp í sjöunda sæti í seinni þjónustustoppunum og vann því tvö stig sem gætu átt eftir að reynast drjúg.

Árangur Räikkönens er Ferrariliðinu eflaust mikill léttir eftir hörmulegt slys Felipe Massa í gær en honum er haldið sofandi á sjúkrahúsi í Búdapest eftir aðgerð á höfði.

McLaren fagnar sínum bestu úrslitum í ár því auk sigurs Hamiltons varð  Heikki Kovalainen fimmti í mark; á eftir Nico Rosberg hjá Williams sem átti góðan dag sem fyrr. 

Ferrari og McLaren upp um sæti í keppni bílsmiða

Nýliðinn Jaime Alguersuari hjá Toro Rosso lauk sínum fyrsta kappakstri í formúlu-1 í 15. sæti. Hann vann liðsfélaga sinn Sebastien Buemi sem snarsneri bílnum í miðjum kappakstrinum og varð síðastur í mark.

Með úrslitum dagsins vann Ferrari sig upp í þriðja sæti í keppni bílsmiða og upp fyrir Toyota.  McLaren  vann sig upp í fimmta sæti, fram úr Williams. Forysta Brawn í keppni bílsmiða minnkar lítillega en þrátt fyrir sjöunda sæti hefur Button 18,5 stiga forskot í keppni ökuþóra. Röðin í þeirri keppni stokkaðist nokkuð upp í dag.

Hamilton vann sinn fyrsta sigur á árinu í Búdapest í …
Hamilton vann sinn fyrsta sigur á árinu í Búdapest í dag. reuters
Alonso byggði upp forskot á fyrstu hringjunum í Búdapest.
Alonso byggði upp forskot á fyrstu hringjunum í Búdapest. reuters
KERS-búnaðurinn reyndist Hamilton og Räikkönen vel en þeir unnu sig …
KERS-búnaðurinn reyndist Hamilton og Räikkönen vel en þeir unnu sig fram úr fjölda bíla í ræsingunni. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert