Þriðja sætið blasti við Kristjáni Einari í Magny-Cours

Kristjáni Einari ýtt inn í skúr eftir tímatökur í Magny-Cours.
Kristjáni Einari ýtt inn í skúr eftir tímatökur í Magny-Cours.

Kristján Einar Kristjánsson varð fyrir því óláni í kappakstri í hinni opnu evrópsku formúlu-3 í Magny-Cours í Frakklandi í dag, að ofurbjartsýnn spænskur ökuþór keyrði á hann í síðustu beygju keppninnar og hafði þar með af honum verðlaunasæti.

Kristján Einar hafði unnið sig jafnt og þétt upp í þriðja sæti í sínum flokki er atvikið átti sér stað. Aðeins 64 metrar í köflótta flaggið sem veifað er þegar ökumenn fara í gegnum endamarkið.

Spænski ökuþórinn Bruno Palli reyndi að taka fram úr Kristjáni Einari í lokabeygjunni en uppskar einungis það að fella bæði sjálfan sig og Kristján Einar úr leik.

Liðstjórar og ökumenn sátu eftir keppni rökstólum með dómurum keppninnar. Eftir á að koma i ljós hvort Palli þurfi að taka út sérstaka refsingu fyrir hina vonlausu sóknartilraun sína.

Keppnin í dag var annars einhver sú átakamesta í mótaröðinni í ár. Nítján bílar beggja keppnisflokka voru ræstir af stað. Allir þrír bílar West Tec, liðs Kristjáns Einars, lentu í ákeyrslum. Thor Christian Ebbesvik fékk bíl utan í sig um miðbik kappakstursins og Callum Mcleod sem keppir með Kristjáni Einari um Copa bikarinn var í 1. sæti þegar hann fékk bíl utan í sig á 11. hring af 18 og féll úr leik.

John Miller, liðstjóri West Tec liðsins segist ekki hafa upplifað aðra eins keppni og í dag. „Hún var ótrúlega spennandi frá upphafi til enda. Allir þrír ökumenn okkar óku upp í verðlaunasæti, Kristján, Callum og Thor-Christian sýndu allir sínar bestu hliðar undir stýri þótt enginn þeirra kæmist í mark. Erfiðast var samt að horfa á Kristján Einar keyrðan út úr fyrir framan lokaflaggið. En það er önnur keppni á morgun,“ sagði Miller.

Seinni keppni helgarinnar á Magny-Cours hefst á íslenskum tíma kl. 10:10 á morgun, sunnudag.  RÚV mun sýna beint frá keppninni, en tækniörðugleikar komu í veg fyrir beina útsendingu frá Magny-Cours í dag.


Kristján Einar (l.t.h.) við stjórnborð West Tec-liðsins.
Kristján Einar (l.t.h.) við stjórnborð West Tec-liðsins.
Kristján Einar og Miller tæknistjóri í Magny-Cours í dag.
Kristján Einar og Miller tæknistjóri í Magny-Cours í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert