Vettel óstöðvandi í Sepang

Vettel á efsta pallþrepinu í Sepang.
Vettel á efsta pallþrepinu í Sepang. reuters

Sebastian Vettel hjá Red Bull var í þessu að vinna sigur í malasíska kappakstrinum í Sepang. Hann var í algjörum sérflokki, skaust úr þriðja sæti af rásmarki og náði  forystu fyrir fyrstu beygju. Eftir það var honum aldrei ógnað og nú entist bíllinn honum alla leið í mark.

Með þessu vann Vettel sinn sjötta sigur á ferlinum og segja má, að allt er þegar þrennt er. Hann drottnaði í tveimur fyrstu mótunum en í bæði skiptin bilaði bíllinn í miðri keppni og hafði af honum sigur. Hann hefur leitt mun fleiri hringi í keppni en nokkur annar ökuþór í ár en er samt aðeins í þriðja sæti í stigakeppni ökuþóra, fyrst og fremst vegna brottfalls í Melbourne.

Í öðru sæti í dag varð liðsfélagi Vettels, Mark Webber, sem hóf keppni af ráspól. Þriðji varð Nico Rosberg og er það í fyrsta sinn sem Mercedes á mann á palli. Liðsfélagi hans, Michael Schumacher, féll úr leik snemma eftir að felguró losnaði og féll af Mercedesbílnum.

Robert Kubica hjá Renault varð fjórði og Adrian Sutil hjá Force India fimmti, eftir mikla snerru hring eftir hring við Lewis Hamilton hjá McLaren. Felipe Massa hjá Ferrari sótti á er hann komst loks fram úr Jenson Button hjá McLaren en náði þó ekki Hamilton alveg.

Massa tekur forystu í stigakeppni ökumanna

Massa tók forystu í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra, er með sínum 39 stigum tveimur stigum á undan liðsfélaga sínum Fernando Alonso og Vettel. Alonso þurfti að bíta í það súra epli að falla úr leik vegna bilunar á næst síðasta hring en ella hefði hann verið með sömu stigatölu og Massa.

Keppnin var aldrei tvísýn um fremstu sæti en mikil stöðubarátta átti sér stað milli ökuþóra annarra en Red Bull. Sáust oft skemmtileg tilþrif og framúraksturstilraunir, einkum af hálfu yngri ökumanna, svo sem Vitaly Petrov hjá Renault og Jamie Alguersuari hjá Toro Rosso.

Fyrstu stig Alguersuari og Hulkenberg

Hamilton, félagi hans Jenson Button og Ferrariþórarnir Felipe Massa og Fernando Alonso höfðu í nógu að snúast og háðu margar rimmur sín á milli og við aðra ökuþóra er þeir unnu sig fram á við, en þeir hófu allir keppni í 17. sæti eða aftar. Á næst síðasta hring fuðruðu vonir Alonso um að taka fram úr Button og halda forystu í stigakeppni ökuþóra er reykur stóð skyndilega undan afturenda hans, líklega fór þar gírkassi.

Jamie Alguersuari hjá Toro Rosso og Nico Hulkenberg hjá Williams náðu þeim áfanga að vinna sitt fyrstu stig í formúlu-1. Hulkenberg lauk keppni í tíunda sæti en Alguersuari í því níunda og hefur hann aldrei ekið jafn glæsilega og í dag. Vann hann rimmur við bæði Vitaluy Petrov hjá Renault og síðar Hulkenberg.

Virgin í fyrsta sinn í mark

Virginbíll komst í dag í fyrsta sinn á mark í formúlu-1. Þar var Luca di Grassi á ferð en hann varð 14. í mark. Pedro de la Rosa hjá Sauber varð fyrir þeirri óvenjulegu reynslu að falla úr leik á leiðinni út á rásmarkið því skömmu eftir að hann yfirgaf bílskúr sinn sprakk mótorinn í bílnum.

Aldrei varð úr því að veðurspár um þrumur, eldingar og rigningu rættust, heldur skein sól í heiði allan kappaksturinn.

Keppnin um bæði titil ökuþóra og titil bílsmiða jafnaðist nokkuð með úrslitum dagsins og skilja aðeins fjögur stig fyrstu fimm menn að. Hið sama er að segja um stigakeppni liðanna. Þar drógu McLaren og Red Bull á Ferrari.


Vettel (t.v.) og Webber fagna tvöföldum sigri Red Bull.
Vettel (t.v.) og Webber fagna tvöföldum sigri Red Bull. reuters
Vettel á undan Webber í fyrstu beygjum. Kubica í humátt …
Vettel á undan Webber í fyrstu beygjum. Kubica í humátt á eftir. reuters
Schumacher féll úr leik er felguró losnaði af bíl hans.
Schumacher féll úr leik er felguró losnaði af bíl hans. reuters
Rosberg (l.t.h.) færði Mercedes sitt fyrsta pallsæti.
Rosberg (l.t.h.) færði Mercedes sitt fyrsta pallsæti. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert