Takmark Heidfeld að leggja Ferrari að velli

Mick Heidfeld á Renault í Sepang.
Mick Heidfeld á Renault í Sepang. reuters

Nick Heidfeld gengur bjartsýnn til verka hjá Renault og segir takmark sitt að hjálpa liði sínu við að leggja Ferrari að velli í ár. Hann telur hins vegar að Red Bull, McLaren og Mercedes séu að skilja sig að frá öðrum í toppslagnum.

Heidfeld stóð í fyrsta sinn í tvö ár á verðlaunapalli er hann varð annar í Malasíukappakstrinum í Sepang á dögunum. Í mótinu á undan, því fyrsta á árinu, varð liðsfélagi hans Vitaly Petrov annar.

Og þótt botninn hafi aðeins dottið úr hjá liðinu í Kína, þar sem níunda sæti var það besta, kveðst Heidfeld á því að Renault geti staðið Ferrari á sporði að bílhraða.

„Við leggjum mjög hart að okkur og liðið hefur bætt sig mjög síðasta hálfa annað árið eða svo. Og haldist sami dampur í þróunarvinnunni verður áframhald á slagkrafti okkar.

Það verður ekki auðvelt viðfangs að glíma við lið á borð við Ferrari en við munum tvímælalaust reyna vinna þá. Mercedes virðist hafa farið mjög fram og McLaren og Red Bull eru enn nokkuð á undan. En bæði metnaður liðsins og markmið er að komast í toppslaginn,“ segir Heidfeld hinn brattasti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert