Häkkinen gagnrýnir Räikkönen

Kimi Räikkönen í breska kappakstrinum í Silverstone.
Kimi Räikkönen í breska kappakstrinum í Silverstone. mbl.is/afp

Mika Häkkinen segir það hafa verið óskynsamlegt af landa sínum Kimi Räikkönen að lýsa því yfir að hann muni „líklega“ hætta keppni í formúlu-1 við vertíðarlok á næsta ári, 2015.

Häkkinen segir þetta verða til þess að Ferrari einbeiti sér í staðinn að Fernando Alonso og keppnisbíl hans. Räikkönen sagði í aðdraganda breska kappakstursins í Silverstone að hann myndi ólíklega sækjast eftir framlengingu ráðningarsamnings síns hjá Ferrari, sem rennur út á næsta ári.

„Þetta var ekki sérlega snjallt hjá honum, held ég,“ segir Häkkinen í dálki sem hann ritar fyrir tímaritið Hermes. „Þegar tæknimennirnir og allir hinir í liðinu vita að ökumaður áformar að hætta eftir hálft annað ár einbeita þeir sér fremur í störfum sínum að hinum ökumanninum, sem í þessu tilviki heitir Alonso,“ skrifar Häkkinen.

Hann segist ennfremur búast við að áhugi hans minnki eftir játningu þessa. „Þegar menn fara að hugsa um að hætta þá hefur það neikvæð áhrif á áhuga hans. Sá einstaklingur getur ekki lengur einbeitt sér að öllu því sem um er að hugsa  í formúlu-1,“ segir Häkkinen ennfremur.

Räikkönen er sem stendur í 12. sæti í stigakeppni ökumanna, átta sætum og 68 stigum á eftir  Alonso.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert