Rosberg: Akstursóhapp

Nico Rosberg gengur inn á verðlaunapallinn í Spa, fagnandi öðru …
Nico Rosberg gengur inn á verðlaunapallinn í Spa, fagnandi öðru sætinu. mbl.is/afp

Nico Rosberg heldur fast við þann keip, að samstuð þeirra Lewis Hamilton í belgíska kappakstrinum í gær hafi verið akstursóhapp.

Eftir kappaksturinn sagði Hamilton við blaðamenn að Rosberg hefði viðurkennt að hafa ekið á liðsfélaga sinn af ásettu ráði.

Því er Rosberg ekki sammála - eins og fram kemur í myndskeiðinu hér að neðan - og vísar fullyrðingum liðsfélaga síns á bug. Segir að samstuðið hafi verið eitt af því sem gerist í hita keppninnar.

„Mér þykir leitt að við skyldum rekast saman en ég lít á þetta sem akstursóhapp - rétt eins og eftirlitsdómararnir, þeir eru sömu skoðunar,“ segir Rosberg.  

Þar sem hann kláraði keppni í öðru sæti en Hamilon féll úr leik er Rosberg nú með 29 stiga forskot á Hamilton í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna.

„Hlutverk okkar er að skemmta og gefa unnendum íþróttarinnar tækifæri til að njóta keppninnar. Því eru einvígi okkar alltaf á ystu nöf.

Ég var hraðskreiðari á beina kaflanum og sótti að utanverðu þar sem línan innanvert var lokuð. Ég lét slag standa og lagði til atlögu og þegar ég áttaði mig á að vængurinn var skemmdur hélt ég að keppninni væri lokið.

Á næstu sekúndu sá ég að Lewis átti einnig við vanda að stríða [sprungið afturdekk] sem var ólán fyrir hann og allt liðið. Við áttum stuttan fund eftir keppni og það eru framundan fleiri fundir til að koma í veg fyrir atvik sem þetta,“ sagði Rosberg, en útlit er fyrir að þeim verði bannað að keppa innbyrðis það sem eftir er vertíðar.

Nico Rosberg fagnar í Spa í gær.
Nico Rosberg fagnar í Spa í gær. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert