Button hugsanlega að hætta

Jenson Button á McLarenbílnum í Spa um síðustu helgi.
Jenson Button á McLarenbílnum í Spa um síðustu helgi. mbl.is/afp

Jenson Button segir hugsanlegt að hann hætti nauðugur keppni í formúlu-1 við vertíðarlok. Ástæðan er dráttur McLarenliðsins á að móta ökumannastefnu sína fyrir næsta ár.

McLaren ætlar að taka sér tíma til að velta ökumannaskipan sinni frekar fyrir sér en liðið fær nýjan mótorsmið, Honda, til liðs við sig á næsta ári.

Liðsstjórinn Eric Boullier játar að ástandið sé óþægilegt fyrir Button og liðsfélaga hans, danska nýliðan Kevin Magnussen.

Hermt hefur verið að McLaren sé að reyna tæla Sebastian Vettel og Fernando Alonso til sín. Og næli liðið í annan hvorn þeirra yrði það að líkindum á kostnað heimsmeistarans fyrrverandi, Buttons, þar sem Magnussen er uppalinn hjá McLaren.

„Við höfum ekki sest niður og rætt málin,“ segir Button við BBC Sport. „Verði ég að hætta við vertíðarlok þá verður það bara þannig, en mér finnst ég hafa enn mikið að gefa og tilhugsunin um líf utan akstursíþróttarinnar er óraunveruleg.“

Button hefur keppt fyrir McLaren frá 2010, árinu eftir að hann varð heimsmeistari með Brawnliðinu 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert