Frumsýna í lok janúar

McLaren verður fyrst liða til að frumsýna keppnisbíl sinn.
McLaren verður fyrst liða til að frumsýna keppnisbíl sinn.

McLaren og Ferrari hafa ákveðið að frumsýna keppnisbíla sína í ár í lok janúar. McLaren verður fyrri til, eða 29. janúar og Ferrari sýnir sinn keppnisfák daginn eftir.

Veigamiklar breytingar eiga sér stað hjá McLaren í ár þar sem liðið mun brúka Honda-vélar í stað Mercedesmótora sem knúið hafa bíla McLaren í tæpa tvo áratugi.

Frumsýning McLaren mun eiga sér stað í Jerez-brautinni á Spáni en nokkrum dögum seinna hefjast fyrstu bílprófanir ársins þar.

Fernando Alonso mun frumaka McLarenbílnum eftir að hann hefur verið sviptur hulum í í Jerez.

Frumsýning Ferrari verður látlausari og mun einungis eiga sér stað á veraldravefnum. Þannig segist liðið hafa þrjá aukadaga til tæknivinnu sem ella hefðu farið í undirbúning frumsýningar eins og þær lengstum voru.

Að frumsýningu lokinni tekur Ferrari stefnuna á Jerez og tekur þátt í bílprófanalotunni sem standa mun yfir 1. til 4. febrúar. Sú breyting hefur átt sér stað hjá Ferrari að Alonso hefur haft vistaskipti og í hans stað er kominn Sebastian Vettel frá Red Bull.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert