Þriðji ráspóllinn í röð

Lewis Hamilton ók liðugt til fyrsta sætis í keppninni um …
Lewis Hamilton ók liðugt til fyrsta sætis í keppninni um ráspólinn. mbl.is/afp

Lewis Hamilton hjá Mercedes var í þessu að vinna ráspól kínverska kappakstursins en það er þriðji ráspóll hans í röð á árinu.

Í öðru sæti og aðeins 40 þúsundustu úr sekúndu á eftir varð Nico Rosberg liðsfélagi Hamiltons. Sebastian Vettel hjá Ferrari hreppti svo þriðja rásstaðinn eftir hörku keppni við ökumenn Williams, Felipe Massa og Valtteri Bottas sem hefja keppni í fjórða og fimmta sæti.

Vettel var hins vegar 0,8 sekúndum lengur með hringinn en Rosberg sem er mikill munur. Aftur á móti var hann 0,6 sekúndum fljótari en liðsfélaginn Kimi Räikkönen sem hefur keppni af sjötta rásstað eftir tvær eigi fullkomnar atlögur í lokalotu tímatökunnar í Sjanghæ.

Lewis Hamilton ók sérdeilis liðugt í lokalotu tímatökunnar og virtist aldrei þurfa knýja bíl sinn til hins ítrasta. Eftir að hafa misheppnast fyrri tímatilraunin sló Rosberg frá sér í þeirri seinni en mistókst naumlega að velta liðsfélaga sínum af stalli en Hamilton hefur þá unnið ráspól allra þriggja fyrstu móta ársins.

Fyrsta sætatuginn á rásmarkinu fylltu svo Daniel Ricciardo hjá Red Bull, Romain Grosjean hjá Lotus og Saubermennirnir Felipe Nasr og Marcus Ericsson.

McLarenbílarnir féllu úr leik í fyrstu lotu, Jenson Button varð 17. og Fernando Alonso 18. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert