Alonso: Ekkert breyst hjá Ferrari

Fernando Alonso í Barcelona.
Fernando Alonso í Barcelona. mbl.is/afp

Fernando Alonso segir að í raun hafi ekkert breyst milli ára hjá Ferrariliðinu, það hafi Spánarkappaksturinn í Barcelona sýnt fram á. 

„Ég var hálfa mínútu á eftir Mercedes á Ferraribíl í fyrra. Á sunnudag voru Ferraribílarnir 43 sekúndum á eftir í Barcelona. Ekkert hefur breyst - og það er ein af ástæðunum fyrir því að ég yfirgaf Ferrari,“ sagði Alonso við bresku stöðina Sky Sports.

Alonso segir það hafa verið rétt af sér að yfirgefa Ferrari. Hann sagði ástæðu þess að ökumenn Ferrari hafi náð á verðlaunapall í ár sé sú, að keppinautarnir séu mun slakari nú, en þar á hann við bæði Red Bull og Williams.

Alonso var í herbúðum Ferrari í fimm ár og náði aldrei þeim árangri sem honum stóð hugur til. Gekk hann í staðinn til liðs við McLaren sem hefur nú japanska bílsmiðinn Honda sem vélasmið. Enn á það samstarf eftir að bera ávöxt en Alonso segist sannfærður um að rétt hafi verið að hafa vistaskipti og veðja á það eftir að „hafa misst trúna“ á Ferrari. 

„Ég er mjög ánægður með vistaskiptin. Úrslitin á sunnudag sýna að ekkert hefur breyst. Ég sá ekkert breytast til hins betra í fimm ár og vildi því ekki upplifa sjötta eða sjöunda slíka árið,“ sagði Alonso.

„Ég er mjög kappsfullur, áhuginn er óbilandi. Takist okkur að verða samkeppnisfærir senn þá mun það verða sætt því við byrjuðum á núlli. Og ég held okkur muni takast að skora okkar fyrstu stig í Mónakó,“ spáði McLarenþórinn.

Hann bætti því við að hann vonaðist til að ökumenn McLaren kæmust í tæri við verðlaunapall á lokaspretti mótanna í haust.

Alonso þurfti af einstaklega óvenjulegri ástæðu að hætta keppni í Barcelona. Plasthlíf af hjálmgleri hans rataði með einhverjum hætti inn í kælitrekt fyrir afturbremsur og leiddi til þess að bremsurnar hitnuðu um of.

„Ef ég reyndi þetta aftur milljón sinnum myndi mér örugglega ekki takast það,“ sagði Alonso um atvikið einkennilega. Gat hann m.a. af þessum sökum ekki stoppað rétt á bílskúrasvæðinu í dekkjastoppi. 



 

Fernando Alonso á undan Daniil Kvyat hjá Red Bull í …
Fernando Alonso á undan Daniil Kvyat hjá Red Bull í kappakstrinum í Barcelona. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert