Mercedes biður Hamilton afsökunar

Staðan rétt eftir endurræsingu í Mónakó. Nico Rosberg fremstur, Sebastian …
Staðan rétt eftir endurræsingu í Mónakó. Nico Rosberg fremstur, Sebastian Vettel annar og Lewis Hamilton sem komst aldrei fram úr keppinautunum eftir þetta. mbl.is/afp

Mercedesstjórinn Toto Wolff hefur beðið Lewis Hamilton afsökunar á dekkjaskiptaklúðrinu er kostaði hann annars öruggan sigur í Mónakókappakstrinum.

Hamilton var kallaður inn að bílskúr til dekkjaskipta er öryggisbíll var sendur út í brautina er um 16 hringir af 78 voru eftir.

Liðsfélagi hans, Rosberg, hélt hins vegar áfram akstri og Sebastian Vettel hjá Ferrari stoppaði ekki heldur til að fá ný dekk. Missti Hamilton þá báða fram úr sér er hann kom út úr stoppinu og komst aldrei fram úr þeim þótt hann væri á nýjum dekkjum en hinir á slitnum.

„Við töpuðum kappakstrinum fyrir Lewis með mistökunum,“ sagði Wolff við bresku sjónvarpsstöðina Sky Sports. „Við héldum að bilið væri meira en það í raun reyndist. Þá kallaði hann [Hamilton] í stöðina og sagði að dekkjahiti hefði lækkað og hann hefði ekki lengur neitt veggrip.

Algjört vanmat, við hefðum átt að hafa heildarsýn á yfir stöðuna. Ég er afar leiður, sigurinn var Lewis, auðveldlega, en við eyðilögðum hann fyrir honum. Það er ekkert annað að gera en biðjast afsökunar, afsökunar, afsökunar,“ sagði Wolff.

Hamilton sagðist hafa átt erfitt með að tjá sig á blaðamannafundinum eftir kappaksturinn. „Ég get ekki lýst því hvernig mér líður og því ætla ég ekki einu sinni að reyna það,“ muldraði hann í míkrófóninn. „Maður reiðir sig á liðið, ég sá skjá og það var eins og liðið væri úti og ég hélt Nico hefði stoppað [til dekkjaskipta]. Liðið sagði mér að vera áfram í brautinni en ég sagði þá að dekkin væru að missa hita - og ég gekk út frá því að þessir náungar [Rosberg og Vettel] væru komnir á mjúk dekk og ég yrði á hörðum og þá var mér sagt að koma inn. Ég ók heim að bílskúr sannfærður um að þeir hinir myndu líka stoppa,“ sagði Hamilton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert