Räikkönen fær frest til að sanna sig

Kimi Räikkönen á leið til fjórða sætis í kappakstrinum í …
Kimi Räikkönen á leið til fjórða sætis í kappakstrinum í Montreal. mbl.is/afp

Dagurinn 31. júlí næstkomandi er þrælmerktur í dagbókum bæði Ferrari og Kimi Räikkönen. Þá rennur út frestur sem hann hefur til að sýna sig og sanna að hann verðskuldi áframhaldandi ráðningu á næsta ári.

Þessu heldur íþróttadagblaðið Corriere dello Sport fram en það segir að þann dag ætli Ferrari að ákveða hvort liðið nýtir sér klásúlu í samningi Räikkönen og framlengir samning hans um eitt ár eða ekki.

„Ég hef engar áhyggjur, tíminn leiðir í ljós hvað gerist,“ segir finnski ökumaðurinn í frétt ítalska íþróttadagblaðsins. En þau ummæli lét hann falla áður en liðsstjórinn Maurizio Arrivabene varaði hann við og sagði hann verða bæta frammistöðu sína í tímatökum.

„Eins og ég hef sagt þá ræðst það af árangrinum. Nái hann settum viðmiðunum sem ég gaf honum - hvers vegna ekki,“ segir Arrivabene á opinberri vefsíðu formúlu-1 spurður hvort Räikkönen yrði áfram með Ferrari 2016.

Flugufregnir hafa bendlað bæði Valtteri Bottas og Daniel Ricciardo við sæti hjá Ferrari ef liðið ákveður að láta Räikkönen fara. Red Bull liðið segist með „skotheldan“ samning við Ricciardo fyrir næsta ár og Williamsliðið mun einnig með samning sem geti fest Bottas þar á næsta ári.

Þar til ofangreindur dagur rennur upp, föstudagurinn 31. júlí, fara fram þrjú mót í formúlu-1 - Austurríki, Silverstone og Ungverjalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert