Með Ferrari í skotskífunni

Felipe Massa vann ráspólinn í Austurríki í fyrra á Williamsbílnum.
Felipe Massa vann ráspólinn í Austurríki í fyrra á Williamsbílnum. mbl.is/afp

Einn af helstu tæknimönnum Williamsliðsins, Rob Smedley, segir takmarkið að komast nær toppnum í austurríska kappakstrinum komandi sunnudag og minnka bilið í Ferrari í keppni bílsmiða.

Williamsliðið átti í síðasta móti, í Montreal, sinn besta kappakstur á árinu. Valtteri Bottas varð í þriðja sæti og Felipe Massa í því sjötta, eftir að hafa byrjað einna aftast á rásmarkinu.

Smedley kveðst sannfærður um að FW37-bíllinn muni standa sig vel í Austurríki og gera Williams kleift að saxa á 76 stiga forskot Ferrari sem situr í öðru sæti í stigakeppninni um heimsmeistaratitil bílsmiða.

„Við sýndum frábæran hraða og skilvirka dekkjastýringu í Montreal og förum því til Austurríkis í góðri vissu um að við getum stefnt á toppsæti. Brautin þar er gjöful kraftmiklum bílum og góðu dragi. Í þeim efnum er okkar bíll öflugur og því erum við bjartsýnir. Við viljum minnka bilið í Ferrari, það er takmark helgarinnar,“ segir Smedley.

Massa vann ráspólinn í Austurríki í fyrra og þar komst Bottas í fyrsta sinn á ferlinum í formúlu-1 á verðlaunapall. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert