Mátti ekki ýta bílnum

Fernando Alonso lýsti undrun sinni á reglum sem komu í veg fyrir að hann gæti haldið áfram akstri í tímatökunni í Búdapest eftir að bíll hans stoppaði á reininni inn að bílskúrunum.

Alonso tjáði tæknimönnum sínum í talstöðinni á innleið að eitthvað væri að vélbúnaðinum. Drap bíllinn síðan á sér og freistaði Alonso að ýta honum spölinn sem eftir var að bílskúr McLaren.

Atvikið átti sér stað í upphafi annarrar lotu og ekki þurfti Alonso að ýta bílnum einn alla leið því brautarverðir komu honum til hjálpar.

Var honum tjáð að hann mætti ekki halda akstri áfram ef tækist að laga bilunina í tæka tíð. „Ég mátti það ekki því bíll verður að komast að bílskúrnum fyrir eigin vélarafli, var mér sagt. Þetta er undarleg regla því við höfum margoft séð bíl koma heim að bílskúr á bílpalli og haldið áfram akstri eftir viðgerð,“ sagði Alonso.

Hann bætti því við að bilunin hefði komið á slæmri stundu, röngu augnabliki því hann hefði verið búinn að vera meðal 10 bestu á æfingum og í tímatökunni þangað til bíll brást honum. „Þetta hefur verið góð helgi fram að þessu,“ sagði hann.

Alonso mun deila áttundu rásröð með liðsfélaga sínum Jenson Button sem komst ekki áfram úr fyrstu tímatökulotunni vegna bilunar í rafeindastýribúnaði.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert