Hamilton og Räikkönen vinsælastir

Kimi Räikkönen er vinsæll og Ferrariliðið líka.
Kimi Räikkönen er vinsæll og Ferrariliðið líka. mbl.is/afp

Lewis Hamilton lagði Kimi Räikkönen naumlega að velli sem vinsælast ökumaður formúlu-1 í hnattrænni skoðanakönnun meðal lesenda breska akstursíþróttaritsins Autosport.

Í annarri könnun sem fram fór á veraldarvefnum fyrir atbeina samtaka kappakstursökumanna (GPDA) og vefritsins motorsport.com varð Räikkönen hlutskarpastur en annar og þriðji vinsælasti ökumaðurinn reyndust Fernando Alonso og Jenson Button.

Í báðum könnunum mældist Ferrari vinsælasta liðið og í öðru sæti varð McLaren.

Í könnun Autosport tóku 35.000 manns þá, langmest karlar á aldrinum 18 til 40 ára. Í könnun GPDA greiddu hins vegar 217.756 atkvæði.

Belgíski kappaksturinn er vinsælasta mót ársins, samkvæmt könnun Autsport og í öðru og þriðja sæti urðu Mónakó og Montreal.

Rúmur þriðjungur svarenda, 37,4%, hafði aldrei sótt kappakstur í formúlu-1 og 37,6% þeirra sögðust engin áform hafa um það vegna hás kostnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert