Button sagður fara til liðs við Top Gear

Ávinningur væri að því fyrir BBC að fá Jenson Button …
Ávinningur væri að því fyrir BBC að fá Jenson Button til liðs við „Top Gear“ þáttarins. mbl.is/afp

Upphaflegir stjórnendur „Top Gear" þátta breska sjónvarpsins, BBC, eru komnir á ferðina á ný og nú hjá sjónvarpsstöðinni Amazon Prime. Er hún sögð borga fyrirtæki þeirra 160 milljónir sterlingspunda, sem svarar til 33 milljarða króna, fyrir að skila 36 þáttum til sýningar.

Athyglin er þó ekki beint á Jeremy Clarkson og hans félaga um þessar mundir, heldur þátt BBC-stöðvarinnar sem þeir koma ekki lengur að. Vinsæll sjónvarpsmaður og bíladellukarl, Chris Evans, hefur tekið við aðalhlutverki í þeim og um hann var fjallað í síðasta bílablaði Morgunblaðsins.

Helst er spurt nú hverjir verða aðstoðarkokkar hans í þáttunum í framtíðinni. Herma heimildir að senn verði frá því skýrt að formúluökumaðurinn Jenson Button verði aðstoðarmaður Evans. BBC er sagt á höttunum eftir honum en stöðin hefur þó varist allra fregna. Stofnunin hefur þó ekki viljað vísa því á bug að eiga í viðræðum við Button. Og heimildarmaður innan hennar - ónafngreindur að vísu - segir þó við blaðið Daily Mail, að tilkynning _sé yfirvofandi".

Blaðið segir, að Button og Evans séu persónulegir vinir en það þykir draga úr sannleiksgildi fréttarinnar, að Button hefur að undanförnu þráfaldlega neitað að hann sé á sinni síðustu keppnistíð í formúlu-1 og ætli sér ekkert annað en halda áfram kappakstri þeim. Alltjent er þó farið að síga á seinni hluta ferilsins því heimsmeistarinn frá 2009 er 35 ára gamall. Sem er hár aldur á vettvangi formúlu-1 þar sem stöðugt yngri ökumenn keppa með ágætum, svo sem 17 ára nýliðinn Max Verstappen og 21 árs Rússinn Daniil Kvyat.

Forstjóri BBC, Tony Hall, hefur lýst þeirri skoðun að hann vilji sjá konur í megin hlutverkum í Top Gear-þáttunum. Líklegt er talið að kona sem er einn af stjórnendum þáttaraðar BBC um fornbíla, Jodie Kidd, gangi til liðs við bílaþættina vinsælu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert