Manor til Mercedes

William Stevens á ferð á Manorbíl í Singapúr.
William Stevens á ferð á Manorbíl í Singapúr. mbl.is/afp

Bílar Manor verða ekki knúnir Ferrarivélum á næsta ári eins og í ár og í fyrra. Hefur Mercedes samþykkt að taka það upp á arma sína.

„Ég er í sjöunda himni með að geta tilkynnt um nýjan samstarfsaðila okkar, Mercedes-Benz, fyrir ókomin ár,“ segir liðsstjóri Manor, John Booth. 

Um verður að ræða þá útgáfu af Mercedesvélum sem brúkaðar eru í keppni í ár, þ.e. ársgamlar á næsta ári.

Booth kveðst þeirrar skoðunar að út frá prófunum á 2016-bílnum í vindgöngum og með aflrásina frá Mercedes muni Manor taka stórum framförum á næsta ári. Liðið mun að auki fá gírkassa og fjöðrunaríhluti frá Williamsliðinu.

Ekki er um að ræða fjölgun liða með Mercedesvélar í bílum sínum því Lotusliðið mun hætta að brúka þýsku vélarnar með yfirtöku franska bílsmiðsins Renault á Lotus. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert