Vettel: Ferrari „miklu nær“ Mercedes

Sebastian Vettel (t.v.) kominn fram úr Nico Rosberg á fyrsta …
Sebastian Vettel (t.v.) kominn fram úr Nico Rosberg á fyrsta hring í Melbourne. mbl.is/afp

Þrátt fyrir að hafa orðið þriðji annað árið í röð segir Sebastian Vettel getu Ferraribílanna í ástralska kappakstrinum í Melbourne staðfesta að þeir hafi dregið á bíla Mercedes.

Vettel átti fantagóða ræsingu og stormaði fram úr Lewis Hamilton og Nico Rosberg á fyrstu metrunum. Liðsfélagi hans Kimi Räikkönen gerði slíkt hið sama. Hafði hann lengi forystu en féll að lokum á ólíkri herfræði.

Sú ákvörðun Ferrari að halda honum á ofurmjúkum dekkjum eftir stopp vegna ógnvekjandi áreksturs varð til þess að Vettel þurfi eitt aukastopp. Þetta reyndust mistök hjá Ferrari því hann féll við þetta aftur fyrir báða ökumenn Mercedes. Dró hann Hamilton uppi en komst ekki fram úr, meðal annars vegna eigin akstursmistaka er hann rann út úr brautinni í beygju.

Vettel segir að líðanin sé öðru vísi og betri en eftir þriðja sætið í fyrra. Þá gerði Ferrari sér engar vonir í titilslagnum en annað er uppi á teningnum í ár. „Vissulega væntum við meira í ár. Þá glöddumst við bara yfir því að komast á pall, í ár viljum við vitaskuld meira. Þegar menn verða í öðru sæti í liðakeppninni vilja menn keppa um það fyrsta. Ég held okkur hafi tekist að brúa bilið meira en allir aðrir, sem er jákvætt,“ segir Vettel um árangurinn í fyrsta móti ársins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert