Skellur af harkalegri gerðinni

Zhi Cong Li í loftinu eftir ákeyrslu á bíl Ryans …
Zhi Cong Li í loftinu eftir ákeyrslu á bíl Ryans Tveter í Spielberg í dag. skjámynd af youtube

Alvarlegt óhapp varð í keppni í formúlu-3 í Spielberg í Austurríki í dag er þrír ökumenn skullu saman af miklu afli. Tókst einn bílanna á loft og slasaðist ökumaður hans all nokkuð, Kínverjinn Zhi Cong Li.

Upphaf óhappsins er það að bandaríski ökumaðurinn Ryan Tveter missti bíl sinn út í malargryfju og var að  reyna að komast aftur inn á brautina. Rykmökkur byrgði Zhi Cong Li sýn er hann nálgaðist á botnhraða. Skall hann á bíl Tveters og tókst á loft.

Þriðji bíllinn, bíll brasilíska ökumannsins Pedro Piquet, skall í sömu andrá á bíl Tveters. Kappaksturinn var liður í Evrópumeistaramótinu í formúlu-3. Var keppnin stöðvuð meðan brautin var hreinsuð og Chong Li og Tveters fluttir undir læknishendur.

Chong Li missti meðvitund við slysið en var kominn til meðvitundar er hann var fluttur í læknamiðstöð brautarinnar. Eftir frumskoðun þar var hann fluttur með þyrlu á sjúkrahús vegna brákaðra hryggjarliða og höfuðáverka. Tveter var fluttur á sjúkrahús til rannsókna með sjúkrabíl.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert