Ekkert þægindasvigrúm

Lewis Hamilton á leið til efsta sætis í tímatökunni í …
Lewis Hamilton á leið til efsta sætis í tímatökunni í Barcelona. AFP

Lewis Hamilton segir að þeir Nico Rosberg hafi sest niður nýverið og hreinsað andrúmsloftið eftir áreksturinn se felldi báða úr leik á fyrsta hring í Barcelona.

Hamilton segir samræður þeirra hafa endurspeglað aukinn þroska beggja og samband þeirra sé óskaddað. „Við ræddum saman í rólegheitum, áður fyrri hefði verið spenna milli okkar en svo var ekki nú, bara gagnkvæm virðing.“

Heimsmeistarinn Hamilton viðurkennir að hann hafi „ekkert þægindasvigrúm“ lengur í keppninni um heimsmeistaratitil ökumann. Er hann 43 stigum á eftir Rosberg og búinn að missa Kimi Räikkönen hjá Ferrari fram úr sér.

Þá verður bíll Hamiltons í Mónakó með nýja forþjöppu, hina fjórðu á árin, en alls má ökumaður nota fimm hverfilblásara áður en hann fer að sæta refsingum fyrir fleiri slíka.

„Það er alltaf auðveldara að vera í forystu í stigakeppni, vegna forskotsins. Í því felst þægindasvigrúm og ég nýt ekki slíks. Og það er ekki til neins að velta sér upp úr fortíðinni og spyrja hvað ef . . ., héðan í frá gildir það eitt að horfa fram á við og gera betur,“ segir Hamilton í aðdraganda kappakstursins í Mónakó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert