„Verðum að slá hressilega frá okkur“

Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes, brúnaþungur í Barcelona.
Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes, brúnaþungur í Barcelona. AFP

Mercedesstjórinn Toto Wolff segir að lið hans verði að „slá hressilega frá sér„ í Mónakó og bæta fyrir tvöfalt brottfall ökumanna sinna í síðasta kappakstri, í Barcelona.

Wolff segir að í huga allra liðsmanna sé atvikið milli þeirra Lewis Hamilton og Nico Rosberg í Barcelona að baki og takmarkið sé að komast aftur á toppsæti verðlaunapallsins í Mónakó á sunnudaginn kemur.

„Við höfum séð að keppinautar okkar hafa tekið framförum og því verður rimman hér enn harðskeyttari,“ segir Wolff í aðdraganda helgarinnar. „Red Bull sigraði eftir harðan slag við Ferrari, svo ljóst má vera að að okkur verður sótt úr fleiri áttum en áður. Við getum ekki leyft okkur að slaka á, heldur standa sameinaðir og láta verulega til okkar taka.“

Tæknistjórinn Paddy Lowe er á því að Mercedes þurfi að eiga áfallalausa daga frá fyrstu æfingu til að geta komið til baka og farið með sigur af hólmi í Mónakó. „Við þurfum fullkomna helgi til að geta lagt Ferrari og Red Bull að velli. Keppnin við þessi lið verður áköf og tvísýn.“

Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes (t.v.), á spjalli við aðaleiganda McLarenliðsins.
Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes (t.v.), á spjalli við aðaleiganda McLarenliðsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka