Berger aðstoðar Rosberg

Nico Rosberg átti sinn lakasta kappakstur á árinu í heimabæ …
Nico Rosberg átti sinn lakasta kappakstur á árinu í heimabæ sínum, Mónakó. AFP

Gerehard Berger, austurríski ökumaðurinn fyrrverandi, staðfestir að hann komi fram fyrir hönd Nico Rosberg í samningaviðræðum við Mercedesliðið. 

Freistar Berger þess að endurnýja samning Rosberg við Mercedes og segir ekki önnur lið inni í myndinni sem stendur.

Berger keppti á sínum tíma fyrir  ATS, Arrows, Benetton, Ferrari og McLaren í formúlu-1. Tók hann samningaverkefnið að sér svo Rosberg geti einbeitt sér að keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna.

„Þetta var mjög einfalt mál fyrir mig. Ég hef þekkt Nico frá því hann var lítill strákur. Ég keppti gegn pabba hans Keke árum saman. Þeir feðgar höfðu samband í síðustu viku og spurðu hvort ég gæti gert þeim þann greiða að ná nýjum samningi fyrir Nico því hann vildi geta einbeitt sér að titilslagnum. „Auðvitað“ sagði ég um vinargreiðann,“ segir Berger á opinberri heimasíðu formúlu-1.

Rosberg hefur að undanförnu verið bendlaður við Ferrari á næsta ári en Berger leggur mikla áherslu á að takmarkið sé að ná nýjum samningi við Mercedes. „Aðilar málsins skilja hvorn annan: Mercedes vill halda í Nico og hann vill vera áfram hjá Mercedes.“



Nico Rosberg reið ekki feitum hesti frá Mónakókappakstrinum.
Nico Rosberg reið ekki feitum hesti frá Mónakókappakstrinum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka