Breyttu taktík vegna stopps Vettels

Lewis Hamilton hélt lífinu í dekkjunum nógu lengi til að …
Lewis Hamilton hélt lífinu í dekkjunum nógu lengi til að vinna sigur í Montreal. AFP

Mercedesstjórinn Toto Wolff segir lið sitt hafa skipt um herfræði í kanadíska kappakstrinum eftir að Ferrari kallaði Sebastian Vettel inn til dekkjaskipta er sýndaröryggisbíll var í brautinni.

Hafi Lewis Hamilton því aðeins stoppað einu sinni til dekkjaskipta en liðið hafði ráðgert tvö stopp. Loftsvali í Montreal hafi reyndar skapað óvissu um hvort slíkt myndi ganga upp. 

Vettel skipti yfir á ofurmjúk dekk, hin svonefndu Super Soft dekk, er bilun í bíl Jensons Button olli því að sýndaröryggisbíllinn var virkjaður, en við það verða ökumenn að draga talsvert úr hraða sínum.

Mercedes greip til þess ráðs að láta Hamilton halda áfram akstri á svonefndum Ultra Soft dekkjum en svo skipti hann yfir á mjúku í stoppinu eina. Ljóst varð þá að Vettel ætti eftir að stoppa öðru sinni og setja undir mjúkdekkin, sem skylt var að brúka einhvern tímann í keppninni.

Þegar Vettel stoppaði vegna þessa náði Hamilton forystunni og þrátt fyrir mikla siglingu Vettels hélt Hamilton forystunni alla leið. Hjálpaði þar til að Ferrariþórinn tapaði tíma er hann náði ekki beygju eitt sinn í lokahlykk brautarinnar og tapaði tíma á flóttaleið.

„Lewis ók frábærlega vel til sigurs. Við fórum út í keppnina ennþá í óvissu um hvort besta leiðin væri eitt stopp eða tvö. Það varð okkur hins vegar ljóst þegar Sebastian stoppaði að sigurmöguleikar okkar fælust í bara einu dekkjastoppi. Það mæddi á Lewis að halda lífi í dekkjunum, lengja loturnar sem mest og halda þeirri ferð sem dygði.   

Það leysti hann frábærlega,“ segir Wolff.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert