Samstuð Mercedes á síðasta hring

Barátta Mercedesfélaganna endaði með samstuði í upphafi lokahringsins. Hér er …
Barátta Mercedesfélaganna endaði með samstuði í upphafi lokahringsins. Hér er Nico Rosberg á erð á undann Jenson Button hjá McLaren sem var annar framan af en kláraði í sjötta sæti. AFP

Lewis Hamilton hjá Mercedes var í þessu að vinna sigur í austurríska kappakstrinum eftir samstuð þeirra Mercedesfélagannna, hans og Nico Rosberg, í upphafi síðasta hrings. Eftir er að koma í ljós hvort honum verður refsað fyrir framúrakstur undir gulum flöggum.

Við samstuðið sprakk vinstra afturdekk á bíl Rosberg sem gat þó haltrað í mark, en á leiðinni að endamarkinu missti hann bæði Max Verstappen hjá Red bull og Kimi Räikkönen hjá Ferrari fram úr sér á lokametrunum og varð fjórði.

Á myndskeiðum úr bílskúr Mercedes mátti sjá að liðsstjórunum var ekki skemmt yfir samstuðinu og víst að fundarhöld eiga eftir að verða mikil þar á bæ. Spurning er hvort Rosberg hafi gengið of langt í vörn sinni er inn að beygjunni kom. Þá var gulum flöggum veifað á fyrsta kaflanum er atvikið átti sér stað og undir slíkum kringumstæðum er framúrakstur óheimill. Því er það næsta spurning hversu grimmir dómarar mótsins verða við Hamilton eða hvort þeir hrófli yfirleitt við úrslitunum.

Fimmti var Daniel Ricciardo hjá Red Bull, Jenson Button hjá McLaren varð sjötti, Romain Grosjean hjá Haas sjöundi, Carlos Sainz hjá Toro Rosso áttundi, Valtteri Bottas hjá Williams níundi og tíundi varð Pascal Wehrlein hjá Manor sem vann þar með sín fyrstu stig í keppni í formúlu-1.

Rosberg og Hamilton höfðu skipst á forystunni í kappakstrinum en sá fyrrnefndi hóf keppni af sjötta rásstað og vann sig fljótt fram á við. Komst hann fram úr Hamilton í seinni dekkjastoppunum þegar röskir 10 hringir voru eftir. Virtust dekkin betri hjá Hamilton undir blálokin því hann seig á Rosberg og var aðeins 0,6 sekúndum á eftir við upphaf lokahringsins. Lét hann svo til skarar skríða í annarri beygju, hægri vinkilbeygju við lok brekku. Rosberg var innanvert og virtist annað hvort orðin bremsulaus eða ekki ætla beygja fyrr en í síðustu lög til að hindra félaga sinn í því að komast fram úr á brautinni. Hamilton lét ekki segjast og sveigði með þeim afleiðingum að bílarnir skullu saman. Ekki einu sinni heldur og aftur er Hamilton reyndi að komast inn á brautina strax eftir beygjuna. Var það þá sem dekkið sprakk hjá Rosberg.

Standi úrslitin óbreytt hefur Hamilton aftur minnkað bilið í Rosberg í keppninni umheimsmeistaratitil ökumanna.

Hvellsprakk hjá Vettel

Annað hesta atvik kappakstursins var er þrælslitið hægra afturdekk undir Ferrarifák Sebastien Vettel gaf sig með miklum látum á upphafs- og lokakafla brautarinnar. Við það missti Vettel stjórn á bílnum sem hafnaði á öryggisvegg og rann síðan þvert yfir brautina og útaf henni við vinstri kant. Var Vettel í forystu þegar þetta gerðist, eftir tæpa 30 hringi og benti allt til þess að Ferrari væri að veðja á rigningarskúr og freistaðist þess vegna til að halda Vettel lengur úti í brautinni en dekkin þoldu.

Sebastian Vettel fallinn úr leik í Austurríki. Hægra afturdekkið hvellsprakk …
Sebastian Vettel fallinn úr leik í Austurríki. Hægra afturdekkið hvellsprakk og bíllinn hafnaði á öryggisvegg. AFP
Sebastian Vettel yfirgefur Ferrarifákinn í Spielberg eftir að vinstra afturdekkið …
Sebastian Vettel yfirgefur Ferrarifákinn í Spielberg eftir að vinstra afturdekkið splundraðist. AFP
Sebastian Vettel yfirgefur Ferrarifákinn í Spielberg eftir að vinstra afturdekkið …
Sebastian Vettel yfirgefur Ferrarifákinn í Spielberg eftir að vinstra afturdekkið splundraðist. AFP
Frá upphafi kappakstursins í Spielberg. Næstur er Daniel Ricciardo á …
Frá upphafi kappakstursins í Spielberg. Næstur er Daniel Ricciardo á Red Bull. AFP
Toro Rosso bíll Daniil Kvyat entist ekki lengi í kappakstrinum …
Toro Rosso bíll Daniil Kvyat entist ekki lengi í kappakstrinum í Spielberg. AFP
Toro Rosso bíll Daniil Kvyat entist ekki lengi í kappakstrinum …
Toro Rosso bíll Daniil Kvyat entist ekki lengi í kappakstrinum í Spielberg. AFP
Lítið var eftir af hægra afturdekki Vettels í er hann …
Lítið var eftir af hægra afturdekki Vettels í er hann féll úr leik í Spielberg. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert