Alonso ók hraðast

Fernando Alonso í Silverstone.
Fernando Alonso í Silverstone. AFP

Fernando Alonso hjá McLaren ók hraðast á sérstakri æfingu formúluliðanna í Silverstone í Englandi í dag. Fyrir hádegi voru brautir þurrar en um hádegisbil byrjaði að rigna og væta því á brautum það sem eftir var dagsins.

Alonso settist snemma í efsta sæti lista yfir hröðustu hringi og var a endanum 1,5 sekúndu fljótari en sá er næsthraðast fór; Esteban Ocon hjá Mercedes. Ók hann manna mest eða 123 hringi.Vegna bleytunnar tókst engum að bæta brautartíma sína eftir hádegishlé.

Besti hringur Alonso af 105 hringjum mældist 1.31,290 mínútur og besti hringur Ocons 1.32,833. Þriðja besta tímann (1.34,433) setti svo Alex Lynn sem sinnti bílprófunum öðru sinni fyrir Williams.

Fyrir Ferrari ók reynsluökumaðurinn Charles Leclerc og setti fjórða besta tímann, 1.34,446 mín. Vegna bilana gat hann einungis ekið 19 hringi en nær allir hinir óku meira en 50 hringi.

Carlos Sainz ók 91 hring á Toro Rossobílnum og setti sjötta besta tímann, 1.34,643 mín.

Nikita Mazepin (1.34,521) ók formúlu-1 bíl í fyrsta sinn en hann sinnti akstri fyrir Force India. Átti hann fimmta besta tímann en fyrir aksturinn mun hann hafa fengið að æfa sig mjög í bílhermi liðsins.

Annar nýliði var Santino Ferrucci (1.34,866) sem ók fyrir Haasliðið. Kláraði hann fulla keppnisvegalengd fyrir hádegi og öðlaðist þannig svonefnd ofurréttindi.

Pascal Wehrlein hjá Manor (1.34,982) varði morgninum til prófunar á frumgerðum nýrra dekkja fyrir Pirelli. Hafði hann til brúks Mercedesbíl frá í fyrra. Var því haldið leyndum fyrir honum hvaða dekkjanýjungar voru þar á ferðinni. Ók hann ekkert eftir að tók að rigna um hádegisbil.

Rio Haryanto setti níunda besta tímann á Manorbíl (1.35,631) og lestina ráku svo Sergey Sírotkín (1.36,575) á Renault og Pierre Gasly (1:43,891) hjá Red Bull. 


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert