Losa sig við tæknistjórann

Strax er kominn orðrómur á kreik um að James Allison …
Strax er kominn orðrómur á kreik um að James Allison sé á leið til McLaren. Þar myndi hann hitta fyrir gamlan starfsfélaga frá Ferrari, Fernando Alonso.

Ferrari hefur látið breska tæknistjórann James Allison sigla sinn sjó og við starfi hans tekur Mattia Binotto sem verið hefur yfir véladeild Ferrari frá 2014.

Í byrjun aldarinnar starfaði Allison í fimm ár hjá Ferrari en hélt síðan til starfa hjá Renault. Þar var hann svo í skipsrúmi fram á mitt ár 2013 er hann sneri aftur til Ferrari.

Vegna skorts á viðunandi árangri hefur Ferrari sætt mikilli gagnrýni og Fiat-stjórinn Sergio Marchionne meðal annars krafist uppstokkunar í starfsemi liðsins og skipulagsbreytinga; allt til þess að færa Ferrari aftur á sigurbraut.

Vangaveltur höfðu því verið í gangi um hvort Allison myndi halda starfi sínu en tilkynnt var um brottför hans í höfuðstöðvum Ferrari í gær. Í yfirlýsingu sagði að það hafi verið sameiginleg niðurstaða Allison og stjórnenda liðsins að hann hyrfi á braut.

Ferrari hefur ekki hrósað mótssigri í formúlu-1 og er í öðru sæti í stigakeppni liðanna, en þó aðeins einu stigi á undan Red Bull.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert