Mæðir á Mercedes

Toto Wolff (t.v.) á góðri stundu með Nico Rosberg.
Toto Wolff (t.v.) á góðri stundu með Nico Rosberg. AFP

Mercedesstjórinn Toto Wolff segir miklar væntingar verða gerðar til liðsins á heimavelli í Hockenheim um helgina. Nico Rosberg færði liðinu sigur þegar þýski kappaksturinn fór síðast fram, í hitteðfyrra.

Þá varð liðsfélagi hans Lewis Hamilton þriðji í mark en upp á milli þeirra skaust Valtteri Bottas hjá Williams.

Af síðustu 17 mótum hefur Mercedesliðið hrósað 16 sinnum sigri en Wolf segir heimavöllinn í Hockenheim einungis verða aukin hvatning fyrir keppinautana að freista þess að leggja Mercedes að velli.

„Það er ekkert leyndarmál, þetta er stór og mikilvæg helgi fyrir okkur,“ segir Wolff í aðdraganda kappakstursins. „Og ég er sannfærður um að keppinautarnir myndu hafa af því mikla ánægju að sigrast á heimavelli okkar. Það mæðir því mikið á okkur.“

Wolff bætti því við að staða liðsins væri sterk með báða ökumennina í toppsætunum tveimur. Undir sér hefðu þeir samkeppnisfæra blöndu af vél og undirvagni.  „Ákefðin í innbyrðis keppni þeirra dalar hvergi og við megum búast við heilmikilli skemmtun eftir því sem mótunum vindur fram,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert