Drottnun Mercedes til tjóns

Ökumenn Mercedes hafa drottnað keppni í ár sem í fyrra …
Ökumenn Mercedes hafa drottnað keppni í ár sem í fyrra í formúlu-1. AFP

Jenson Button hjá McLaren er þeirrar skoðunar, að drottnun Mercedesliðsins frá ársbyrjun 2014 hafi haft neikvæð áhrif fyrir íþróttina. Hann segist búast við því að talsverðar reglubreytingar á næsta ári verði til að krydda upp á keppnina og stokka upp röð liðanna.

Button segist ekki skammast út í Mercedes fyrir að ráða lögum og lofum í keppni en kveðst leiður fyrir hönd unnenda íþróttarinnar vegna skorts á skemmtilegri keppni.

„Í mínum huga er það mikilvægasta að önnur lið geti blandað sér í keppnina á toppnum því íþróttin þarf á öðru að halda en að vera alltaf með tvo náunga á alveg eins bílum fremstir,“ hefur vefsetrið autosport.com eftir Button.

„Fleiri bílaframleiðendur þurfa koma til, fleiri lið. Það er á þessu sviði sem við erum að standa okkur illa með því að skila ekki nógu góðu verki til að keppa á toppnum,“ segir Button.

Spánarkappaksturinn í ár var óvenjulegur sakir þess að ökumenn Mercedes féllu úr leik á fyrsta hring með innbyrðis árekstri. Varð það til þess að ökumenn Red Bull og Ferrari háðu harðan slag um sigur er stóð yfir fram á síðasta hring.

„Allir elskuðu kappaksturinn í Barcelona því fjórir bílar slógust þar um sigur þar sem Mercedes var ekki með. Slíkan slag höfðum við ekki séð um þriggja ára skeið. Vonandi fáum við meira af slíku í framtíðinni,“ segir Button.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert