2017 Renault byggir á gömlum bíl

Jolyon Palmer á ferð á Renaultbílnum í þýska kappakstrinum í …
Jolyon Palmer á ferð á Renaultbílnum í þýska kappakstrinum í Hockenheim í júlílok. AFP

Keppnisbílar Renault á næsta ári, 2017, verða ekki byggðir á núverandi bíl liðsins, heldur afleiddir af bílnum frá í fyrra, að sögn liðsstjórans Frederic Vasseur.

Renault sneri aftur til leiks sem bílsmiður í formúlu-1 í framhaldi af yfirtöku á Lotusliðinu. Hóf það snemma að huga að 2017-bílnum eftir að hafa áttað sig á göllum í núverandi bíl.

„Við teljum að árið 2017 verði gjöfulla og bjóði okkur upp á gott tækifæri til framfara,“ segir Vasseur við hina opinberu vefsíðu formúlu-1. Hann segir núverandi bíl hafa verið hannaðan í fyrra kringum Mercedesvél og það hafi því bitnað á getu hans þegar ákveðið var að brúka Renaultvélar í staðinn. Hafi það háð bílnum frá byrjun.

Þar sem allur kraftur Renaultliðsins hefur undanfarnar vikur farið í 2017-bílinn hefur liðið meira og minna sætt sig við að hafna í níunda sæti af ellefu í keppni bílsmiða í ár. Ekkert verður reynt að bæta núverandi bíl það sem eftir er keppnistíðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert