Hefði „elskað“ að geta ráðið Button

Claire Williams stjórnar Williamsliðinu.
Claire Williams stjórnar Williamsliðinu. AFP

Claire Williams, liðsstjóri hjá formúluliðinu Williams, „hefði elskað“ að endurráða Jenson Button til liðsins, en játar að það hefði ekki gengið upp.

Orðrómur var á kreiki þess efnis fyrr á keppnistíðinni að líkur væru á því að Button gæti farið til Williams á næsta ári, en hann hóf á sínum tíma keppni í formúlu-1 hjá því.

Þegar svo Felipe Massa tilkynnti sl. fimmtudag að hann ætlaði að hætta keppni í árslok virtist sem það gæti verið boðberi þess að Button tæki við af honum hjá Williams.

Daginn eftir tilkynningu Massa breyttist þetta allt er Button skýrði frá því að hann hefði framlengt samning sinn við McLaren út árið 2018. Samkvæmt honum keppir Button ekki á næsta ári, heldur verður í lykilhlutverki við bílþróun liðsins og ekki er útilokað að hann snúi aftur til keppni 2018.

„Allir vita að viðhöfðum talsverðan áhuga á Jenson - og hvers vegna skyldi það ekki hafa verið? Hann er maður mikilla hæfileika og færni og öllum liðum væri akkuyr í slíkum ökumanni,“ sagði Claire Williams við sjónvarpsstöðina Sky Sports F1.

Hún bætti því við að það væri miður fyrir íþróttina að vera að sjá á bak tveimur ökumönnum úr keppni, Button og Massa. „Við erum að sjá á eftir tveimur frábærum ökumönnum, goðsögnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert