Ætla að svipta Ferrari sérgreiðslum

Útlit er fyrir að veldi Bernie Ecclestone í formúlu-1 sé …
Útlit er fyrir að veldi Bernie Ecclestone í formúlu-1 sé að ljúka. AFP

Nýir eigendur formúlu-1 hyggjast setja alráðinn Bernie Ecclestone af og svipta Ferrari sérlegum greiðslum fyrir að hafa verið í formúlu-1 frá upphafi vega.

Áður hafði verið sagt að nýir eigendur formúlunnar, bandaríska fyrirtækið Liberty Bernie, ætlaði að fela Ecclestone að reka fyrirtækið áfram næstu þrjú árin.

Samkvæmt umfjöllun þýska bílablaðsins Auto Bild hafa árekstrar orðið á milli Ecclestone, sem er 85 ára, og hins 75 ára Liberty-stjóra John Malone, sem sagðir eru leitt geta til þess að Ecclestone verði að víkja úr starfi við vertíðarlok í Abu Dhabi í nóvember.

Þá segir blaðið að Malone hafi átt átakafund með Ferraristjóranum Sergio Marchionne sem lyktað hafi með því að Libertystjórinn bað Ferraristjórann bara að lögsækja sig ef honum sýndist. "Ég á bæði tíma og peninga til átaka fyrir dómstólum," sagði Malone eftir fundinn með Marchionni þar sem hann kynnti honum þá ákvörðun sína að hætta 100 milljóna dollara árlegri bónusgreiðslu. Ecclestone ákvað þessa greiðslu á sínum tíma og keypti Ferrari þannig til liðs við sig í deilum við liðin um skiptingu arðs og tekna af formúlu-1.

Tímaritið segir einnig, að Mercedesstjórinn Dieter Zetsche hafi tekið vel í hugmyndir Malone um að liðin geti keypt sig inn í viðskiptaréttindi formúlunnar. Mercedes hefur lýst áhuga á að eignast 10% hlut. Bæði Renault og Ferrari þykir slíkn eign fýsileg en Red Bull  er sagt vera hikandi í því efni. 

Það áhugaverðasta í frétt vikuritsins Auto Bild, er að það segir Libtery Media áforma að lækka verð aðgöngumiða að formúlukappakstri verulega, allt niður í um 150 evrur fyrir helgarpassa á mótsdagana þrjá. Og síðast en ekki síst hyggjast nýir eigendur íþróttarinnar fjölga mótum í Evrópu. Sem er skiljanlegt í ljósi þess að áhorfendastújur í Asíu og Miðausturlöndum eru jafnan tómar og þau mót afar illa sótt af áhorfendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert