Vettel sviptur pallsætinu

Sebastian Vettel fagnar þrija sætinu á verðlaunapallinum í Mexíkó í …
Sebastian Vettel fagnar þrija sætinu á verðlaunapallinum í Mexíkó í gærkvöldi. Gripnum varð hann þó að láta Daniel Ricciardo eftir. AFP

Sebastian Vettel hjá Ferrari hefur verið sviptur þriðja sætinu í kappakstrinum í Mexíkó með refsingu sem hann var úrskurðaður í löngu eftir að keppni lauk. Var 10 sekúndum bætt við aksturstíma hans fyrir brot gegn Daniel Ricciardo hjá Red Bull.

Eftir yfirlegu yfir myndskeiðum úr kappakstrinum sögðu dómararnir að Vettel hafi verið full grófur er hann varðist Ricciardo á lokametrum kappakstursins. Refsingin varð til þess að hann féll niður í fimmta sæti, aftur fyrir Ricciardo og Max Verstappen.

Verstappen ók fyrstur þessara yfir marklínuna en var refsað fyrir að stytta sér leið í einvígi um þriðja sætið við Vettel. Skipaði meðal annars stjórnborð Red Bull honum að gefa sætið eftir vegna framhjáhlaupsins en hann hunsaði þau fyrirmæli - og það ekki í fyrsta sinn.

Var fimm sekúndum bætt við tíma Verstappen sem varð til þess að hann féll úr þriðja sæti í það fimmta, aftur fyrir Vettel og Ricciardo.

Stuttu eftir rimmu Vettels og Verstappen gerði Ricciardo atlögu að Vettel og freistaði þess að komast fram úr. Reyndi hann að renna sér inn fyrir Ferraribílinn en Vettel virtist skipta um aksturslínu á bremsusvæði, sem er óheimilt, og nudduðust bílarnir saman í gegnum Ese del Lago beygjuna.

Vettel hélt frumkvæðinu og kláraði fjórði en var síðan kvaddur á verðlaunapall eftir að Verstappen var sendur þaðan til baka í bílskúr Red Bull. Gagnrýndi Ricciardo aksturslag Vettels harðlega strax eftir kappaksturinn og sagði hann ekki verðskulda pallsætið. Undir það tóku dómarar kappakstursins að lokum.

Með þessum breytingum öllum hlaut Ricciardo þriðja sætið í kappakstrinum þótt fimmti væri hann í endamarki. Og með þessu hefur hann og gulltryggt sér þriðja sætið í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna í ár.

Daniel Ricciardo ánægður eftir að hafa fengið verðlaunagripinn frá Sebastian …
Daniel Ricciardo ánægður eftir að hafa fengið verðlaunagripinn frá Sebastian Vettel. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert