Gerðu grín að Mexíkó og múr Trumps

Sergio Perez með þjóðfána sinn og keppnisbíl Force India.
Sergio Perez með þjóðfána sinn og keppnisbíl Force India. AFP

Sergio Pérez, ökumaður Force India í Formúlu 1, hefur sagt upp styrktarsamningi sínum við sólgleraugnaframleiðandann Hawkers. Fyrirtækið birti færslu á Twitter-síðu sinni sem hafði Mexíkóa að athlægi eftir kjör Donalds Trumps sem forseta Bandaríkjanna. AFP greinir frá.

Eins og frægt er orðið lofaði Trump að byggja múr á milli Mexíkó og Bandaríkjanna og láta Mexíkóa greiða fyrir það. Hawkers tísti um að nú ættu Mexíkóar að kaupa sér sólgleraugu frá fyrirtækinu til þess að fela grátbólgin augu sín á meðan þeir reisa múrinn.

Pérez, sem er frá Mexíkó, brást reiður við og sagði að enginn fengi að lítillækka þjóð sína, en samningur hans við Hawkers hafði aðeins tekið gildi fyrr í þessum mánuði. Þá hefur Force India tekið allar vörur frá fyrirtækinu úr sölu í verslun liðsins.

Forráðamenn Hawkers báðust síðar afsökunar og sögðust hafa gert „alvarleg mistök“ sem ekki myndu endurtaka sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert