Malasía úr leik frá 2018

Frá ræsingu kappakstursins í Sepang í ár. Daniel Ricciardo hjá …
Frá ræsingu kappakstursins í Sepang í ár. Daniel Ricciardo hjá Red Bull hrósaði sigri en hér er hann í þriðja sæti . AFP

Malasíukappaksturinn verður ekki á mótaskrá ársins 2019, að sögn ferða- og menningarmálaráðherra landsins, sem ákveðið hefur að framlengja ekki samkomulag um mótshaldið er núverandi samningur rennur út 2018.

Fyrsta mótið í formúlu-1 í Malasíu fór fram 1999, í nýrri kappakstursbraut, í Sepang skammt frá Kúala Lúmpúr. Hefur verið keppt þar allar götur síðan. Íþróttaráðherra landsins dró fyrir skömmu verðmæti mótshaldsins í efa og stallbróður hans á stóli ráðherra ferða- og menningarmála fylgdi því eftir með því að ákveða að hætta mótshaldinu eftir 2018.

„Eftir það verður ekki keppt í formúlu-1 í Malasíu. Aðsókn að íþróttinni hefur farið þverrandi og aðdráttaraflið að mótinu minna en áður. Við verjum til þess 300 milljónum ringgits á ári,“ segir ráðherrann, en það samsvarar 67 milljónum dollara.

Útlit er fyrir að örlög kappakstursins í Singapúr verði hin sömu. Aðeins er eitt ár eftir af samningi um mótshald þar og vilja yfirvöld ekki endurnýja hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert