Segir Mercedes og Ferrari gætu hætt

Ferrari og Mercedes gætu horfið úr formúlunni-1 innan skamms, segir …
Ferrari og Mercedes gætu horfið úr formúlunni-1 innan skamms, segir Bernie Ecclestone. AFP

Bernie Ecclestone, alráður formúlu-1, segir að svo geti farið að bæði Mercedes og Ferrari yfirgefi íþróttina í náinni framtíð. Þá segir hann kappaksturinn í Singapúr heyra sögunni til eftir næsta keppnistímabil.

Þetta kemur fram í samtali við Ecclestone í þýska bílablaðinu Auto Motor und Sport. Þar segir hann að Mercedes og Ferrari kunni að endurmeta þátttöku sína í formúlu-1 þegar kemur að samningum og undirritun nýs samkomulags um skiptingu tekna af íþróttiinni, svonefndu Concorde samkomulagi, á árinu 2020.

„Það gæti komið upp sú staða að Mercedes og Ferrari hlaupist á brott,“ segir Ecclestone. „Í hreinskilni sagt þarf það ekki að hljóma svo hræðilega meðan keppnin gerist meiri og betri.“

„Við verðum að búast við því hvort eð er að bílaframleiðendur dragi sig á einhverju stigi í hlé.  Mercedes mun draga sig út þegar það hentar þeim. Slíkt hefur áður gerst, nægir þar að nefna Honda, BMW og Toyota. Bílafyrirtækin láta sig hverfa þegar þeir hafa náð markmiðum sínum. Örlæti stunda þau ekki,“ bætir Ecclestone við."

Singapúr á síðustu metrunum

Alráðurinn segir að yfirvöld í Singapúr og mótshaldarar muni ekki vilja standa undir keppni eftir að núverandi samningur um mótshaldið þar rennur út. Hann segir stjórnvöld hafa náð því markmiði að vekja athygli á innviðum landsins og efnahagsástandi, en fyrsti kappaksturinn í Singapúr í formúlu-1 fór fram 2008.

Ecclestone segir að íþróttin hafi þjónað Singapúr vel. „Já, það er rétt, kappaksturinn hefur kostað þá mikla peninga. En við höfum fært þeim mikinn auð. Núna er landið eitthvað  meira en bara flugvöllur til að millilenda á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert