Auglýsingin fremur til gamans gerð

Auglýsingin dularfulla í Autosport.
Auglýsingin dularfulla í Autosport.

Flestra augu hafa beins að Mercedesliðinu eftir að Nico Rosberg ákvað að hætta keppni sem heimsmeistari ökumanna í formúlu-1. Stóra spurningin er hver kemur í hans stað.

Mercedes hefur jafnvel þótt nóg um athyglina vegna ökumannamálanna og hefur brugðist við - í gríni að því er ætla verður - með því að auglýsa starf ökumanns laust í breska akstursíþróttaritinu Autosport.

Miðað við ummæli liðsstjóra Mercedes, Toto Wolff,  í byrjun vikunnar fær hann lítinn frið fyrir ökumönnum og umboðsmönnum þeirra sem boðist hafa til að hlaupa í skarðið sem Rosberg skilur eftir sig.

Í auglýsingunni segir að stjórnendur Mercedesliðsins séu að leita að einhverjum með góða afrekaskrá og kunni meðal annars að stýra bíl, bremsa og ekki síst, að gefa hratt í. Það væri svo til bóta að viðkomandi hefði svonefnt ofurkeppnisleyfi frá Alþjóða akstursíþróttasambandinu (FIA). Enginn fær  að keppa í formúlu-1 án þess að hafa það upp á vasann.

Það er til lítils fyrir áhugasama ökumenn að sperra eyrun og svara atvinnuauglýsingu þessari. Í hana vantar allar upplýsingar til þess. Hvorki er gefið upp símanúmer, tölvupóstur eða nafn ráðningarstjóra. Það er meðal annars til marks um að Mercedesliðið virðist hafa slegið öllum viðbrögðunum við því að sæti losnaði í liðinu upp í grín.

Hinni spurningunni er svo ósvarað; þeirri hvort þetta sé einkaframtak og grín af hálfu breska tímaritsins? Hvers vegna skyldi lið þýska bílrisans auglýsa eftir ökumanni í Bretlandi en ekki í t.d. Þýskalandi?

Nico Rosberg fagnar heimsmeistaratitli ökumanna í formúlu-1 við lok síðasta …
Nico Rosberg fagnar heimsmeistaratitli ökumanna í formúlu-1 við lok síðasta móts ársins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert