Sjúkrakostnaður tveir milljarðar

Michael Schumacher rennir sér í ítalskri skíðabrekku.
Michael Schumacher rennir sér í ítalskri skíðabrekku. AFP

Umönnun Michael Schumacher í kjölfar skíðaslyssins í Meribel í Frakklandi nemur jafnvirði tveggja milljarða króna. Þrjú ár voru liðin í fyrradag frá því hann féll í brekkum frönsku Alpanna og hlaut alvarleg höfuðmeiðsl.

Að sögn breska blaðsins Daily Mail nemur sjúkrakostnaðurinn til þessa 13,8 milljónum punda, eða tæplega tveimur milljörðum króna. Hermt er að allt að 15 manna lækna- og hjúkrunarliðs annist Schumacher á heimili hans skammt frá Genf í Sviss.

Fjölskylda heimsmeistarans fyrrverandi í formúlu-1 hefur slegið skjaldborg um Schumacher og varist allra fregna af heilsu hans. Rak hann höfuðið harkalega í stein í fallinu í Meribel og var eftir það hálft ár í dái.

„Heilsa Michaels er ekki opinbert mál og áfram munum því ekkert tjá okkur um hana. Við verðum að standa vörð um einkalíf hans,“ segir talsmaður fjölskyldunnar,  Sabine Kehm.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert