Bottas ráðinn til Mercedes

Valtteri Bottas í höfuðstöðvum Mercedesliðsins í dag.
Valtteri Bottas í höfuðstöðvum Mercedesliðsins í dag.

Mercedes hefur formlega staðfest það sem legið hefur í loftinu í rúman mánuð; að Valtteri Bottas muni keppa í stað Nico Rosberg sem hætti þátttöku í formúlu-1 eftir að hafa unnið heimsmeistartitil ökumanna á 2016 keppnistíðinni.

Bottas var samningsbundinn Williams út 2017 en breska liðið varð við óskum Mercedes og leysti hann undan samningi. Hjá nýja liði sínu mun hann keppa við hlið Lewis Hamilton. Með hrókeringunni kallaði Williams Felipe Massa aftur til starfa en hann hætti keppni við vertíðarlok í fyrra, eins og Rosberg og Jenson Button.

„Komandi keppnistíð verður mikil áskorun og að ganga í nýtt lið kallar á enn meiri vinnu, en undir það er ég búinn,“ segir Bottas, sem er 27 ára, í tilefni ráðningarinnar til Mercedes.

„Ég æfi mjög stíft til að vera sem best líkamlega á mig kominn því nýju bílarnir verða miklu erfiðari viðfangs en 2016-bílarnir. Ég hef alltaf sett markið hátt og því er markmiðið að sýna góðan árangur frá fyrsta móti. Ég er fullur tilhlökkunar og tilbúinn í slaginn með Mercedes, vonandi til margra ára,“ bætir Bottas við.

Hann réðist til Williams sem reynsluökumaður 2010; varð meistari í GP3-formúlunni 2011; sinnti akstri á föstudagsæfingum 2012 og hóf svo keppni með Williams í fyrsta móti ársins 2013. Alls komst hann níu sinnum á verðlaunapall sem ökumaður Williams.

Valtteri Bottas mun keppa fyrir Mercedesliðsins frá og með í …
Valtteri Bottas mun keppa fyrir Mercedesliðsins frá og með í ár. Hér tyllir hann sér á keppnisbíl liðsins 2016 í bækistöðvum þess í dag.
Valtteri Bottas í höfuðstöðvum Mercedesliðsins í dag.
Valtteri Bottas í höfuðstöðvum Mercedesliðsins í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert