Breytt tækni, aukinn hraði og meira krefjandi akstur

Frá upphafi kappaksturs í Mexíkó í fyrra. Bílarnir í ár …
Frá upphafi kappaksturs í Mexíkó í fyrra. Bílarnir í ár taka talsverðum tæknilegum breytingum. Vængirnir verða breiðari og lægri og dekkin stækka um fjórðung. AFP

Árið 2017 markar upphaf nýs skeiðs í formúlu-1 vegna umfangsmikilla breytinga á hönnun og búnaði keppnisbílanna. Miklar breytingar eiga sér stað á tæknireglum íþróttarinnar og mikil uppstokkun hefur átt sér stað á milli ára, ekki síst vegna þeirrar óvæntu ákvörðunar Nico Rosberg að hætta keppni eftir að hafa unnið heimsmeistaratitil ökumanna 2016.

Meginbreytingarnar á tæknireglunum hafa það í för með sér að vængpressa bílanna – það afl sem þeir framleiða til að líma sig niður á malbikið – er aukin. Staðhæft er að stórbrotnara verði að keyra bílana en erfiðara. Þeir verði einnig mun hraðskreiðari en það hefur náðst með því að vænghaf framvængsins hefur verið aukið úr 1,65 metrum í 1,80 m, og bílbreiddin úr 1,80 metrum í 2,00 metra. Þá hefur afturvængurinn verið lækkaður, má að hámarki vera 80 cm yfir jörðu samanborið við 95 cm áður. Loftdreifirinn sem miðlar m.a. útblæstri bílanna er hærra yfir jörðu í ár, eða 17,5 cm miðað við 12,5 í fyrra. Hann verður einnig fimm sentímetrum breiðari, eða 105 cm í stað 100. Loks verða hliðarbelgirnir víðari, eða að hámarki 160 cm í stað 140 cm. Loks kveða nýju tæknireglurnar á um að eigin þyngd bílanna er aukin úr 720 kílóum í 722 kíló.

Breiðari dekk

Dekkin undir bíla formúlunnar breytast mjög í ár og eru breytingarnar þær mestu um langt árabil. Bæði fram- og afturdekk verða 25% breiðari. Með öðrum orðum verða framdekkin 30,5 cm breið í stað 24,5 cm, og afturdekkin verða 40,5 cm breið í stað 32,5. Ítalska fyrirtækið Pirelli framleiðir dekk fyrir öll keppnisliðin og hefur fyrirtækið undirbúið breytingarnar með reynsluakstri í samstarfi við Mercedes, Ferrari og Red Bull, sem lögðu æfingunum til breytta bíla frá keppnistíðinni 2015. Á þeim voru prófaðar samtals 96 frumgerðir nýrra dekkja og öllum gögnum úr akstrinum deilt bróðurlega með öllum keppnisliðum formúlunnar. Af þessum voru fimm mismunandi hörð dekk valin til að notast í fyrstu fimm mótum komandi keppnistíðar. Ökumennirnir fá allir sama skammtinn til notkunar í mótum þessum. Frá og með Mónakókappakstrinum fá ökumennirnir svo að velja sjálfir dekkjahörku 10 setta af 13 sem þeir brúka í hverju móti eftir það. Þar með getur samsetning dekkjalagersins verið ólík innan einstakra liða.

Lægri og kubbslegri en um leið grimmari

Tim Goss, tæknistjóri McLarenliðsins, segir að með breiðari dekkjum og auknu loftafli verði bílarnir „grimmari og svalir“. Þeir verða mun hraðskreiðari og nokkrum sekúndum fljótari með hringinn en verið hefur. „Í fljótu bragði mætti halda að bílarnir litu ósköp venjulega út. Svo er ekki því loftaflsfræðingarnir hafa verið á þönum mánuðum saman að stilla loftflæðið um þá við mismunandi hæð undir botninn,“ segir Goss á heimasíðu McLaren-liðsins.

Hann segir hönnuði og tæknimenn hafa orðið að hugsa marga þætti bílsins upp á nýtt því hann hegðaði sér öðru vísi en áður. „Bílarnir 2017 eru lægri og kubbslegri, þeir sýnast einfaldlega grimmari. Lægri afturvængur, stór og feit dekk og stór loftdreifir, allt virkar þetta svalt og sýnist bíllinn illskeyttur,“ bætir Goss við.

Rásfesta bílanna eykst það mikið að verkfræðingar munu skilgreina margar beygjur brauta sem beina kafla en ekki beygju; svo hratt muni ökumenn fara um þær. Allt í allt verða bílarnir mjög krefjandi á þjálfunarstyrk ökumanna. Þeir munu – eins og fyrir margt löngu – verða útkeyrðir þegar þeir koma í mark.

Vélum fækkar

Áfram verður vél formúlubílanna 1,6 lítra V6 vélar en á þeim hafa verið gerðar nokkrar breytingar fyrir komandi keppnistíð til loka smugum í reglunum sem gert hafa ökumönnum að byggja upp lager af nýjum vélum. Héðan í frá verður sú vél að vera í bíl í upphafi keppnishelgar sem knúði hann í næsta móti á undan ætli ökumenn ekki að kalla yfir sig refsingar. Sérstök leyfi til þróunar vélanna á keppnisárinu hafa verið upprætt með öllu og héðan í frá gildir hámarksverð á vélum sem eitt lið selur öðrum. Kostar eintakið héðan í frá eina milljón dollara. Aukinheldur hafa þær kvaðir verið lagðar á framleiðendur keppnisvéla að þeir verði að leggja liði til vélar skyldi það sitja uppi án samnings við vélarsmiði. Loks fækkar vélum sem ökumaður hefur úr að spila á vertíðinni, eða úr fimm í fjórar.

Breytingar á liðsskipan

Þegar þessar línur eru ritaðar hefur Mercedes ekki tilkynnt hvaða ökumaður komi í stað Nico Rosberg. Þótt hefur liggja í loftinu að það yrði Valtteri Bottas sem fengi sig lausan hjá Williams. Með þeim afleiðingum að Felipe Massa myndi frestað skammvinnu eftirlaunatímabili og keppti eitt ár enn fyrir Williams. Af öðrum hræringum á ökumannamarkaði má nefna að Nico Hülkenberg hefur bundið enda á langa dvöl hjá Force India og gengið til liðs við Renault. Í stað hans fer franski Mercedes-unglingurinn og nýliðinn Esteban Ocon til Force India eftir hálft keppnistímabil hjá Manor. Kevin Magnussen hinn danski færir sig svo frá Renault til bandaríska liðsins Haas, sem þreytti frumraun sína í formúlunni í fyrra.

Við brottför Ocons losnaði að minnsta kosti eitt sæti hjá Manor. Þegar þessar línur eru hins vegar skrifaðar er framtíð liðsins í mikilli óvissu. Er það í höndum skiptastjóra sem freistar þess að tryggja áframhaldandi líf liðsins og keppnisgengi.

Stoffel og Stroll til toppliða

Belgíski ökumaðurinn Stoffel Vandoorne hefur þegar þreytt frumraun sína í formúlunni sem varaökumaður Fernando Alonso hjá McLaren. Keppnistíðin í ár verður þó hans fyrsta fulla vertíð. Kemur hann í stað Jensons Button. Vandoorne var GP2-meistari árið 2015 og fjórði í Súperformúlunni ásamt því að sinna reynsluakstri fyrir McLaren.

Þá hefur Williams-liðið ráðið kanadíska nýliðann Lance Stroll sem keppnisökumann á næsta ári en hann er aðeins 18 ára, sonur kanadísks auðkýfings. Hann varð meistari í Evrópuröðinni í formúlu-3 á nýliðnu ári. Vann hann 14 mót með Prema-liðinu en sinnti inn á milli æfingaakstri fyrir Williams til að búa sig undir keppni með liðinu í formúlu-1. Á jómfrúarvertíð sinni þarf hann að sýna og sanna að það voru fyrst og síðast hæfileikar hans sem ökumanns sem réðu ráðningunni til hins virta og stönduga Williams-liðs en ekki peningar pabba hans.

Samningar renna út

Kjánatíðin svonefnda mun hefjast snemma keppnistíðarinnar í ár. Á henni flýgur orðrómur um menn og málefni jafnan hátt og vangaveltur um ökumenn færast mjög í aukana og verða að óstaðfestum fregnum – sem oftast reynast þær einu réttu! Kviksögumenn hafa góðan efnivið í ár því við vertíðarlok 2017 renna út samningar tveggja meistara, Fernando Alonso og Sebastian Vettel. Alonso er á þriðja ári hjá McLaren og segist ætla bíða og sjá hvernig keppnisbíllinn í ár heppnast áður en hann ákveður hvort hann heldur áfram eða hætti við vertíðarlok.

Framtíð Vettels er gædd óvissu þar sem sambúð hans og liðsstjóranna súrnaði talsvert á keppnistíðinni 2016 vegna margs konar áfalla og bíls sem reyndist getulítill í samanburði við risana hjá Mercedes. Þá rennur samningur Kimi Räikkönen einnig út í ár og munu því margir ökumenn um miðbik rásmarksins reyna spjara sig sem mest í ár í þeirri von að heilla stjórnendur Ferrari.

Ferrari ætlaði sér stóran hlut 2016 og keppa um sigur og titla við Mercedes. Fór það á annan veg og seig lengra aftur úr en 2015 og missti Red Bull fram úr sér. Ferrari vann ekki einn einasta kappakstur í fyrra og varð 367 stigum á eftir Mercedes, um hundrað fleirum en árið áður. Lét Vettel þetta mjög á sig fá og svekkelsi hans braust margsinnis út á kappakstursbrautinni. Ögn virtust bílarnir skarlatsrauðu vera að batna undir lok vertíðar en það var of seint til að ráða við Red Bull, sem var næstbesta liðið 2016.

Röðin mun breytast

Aðalhönnuður Red Bull liðsins, hinn annálaði Adrian Newey, býst við talsverðri uppstokkun á rásmarkinu í ár vegna nýju tæknireglnanna. Vegna mikillar áherslu á loftafl bílanna og straumfræðilegrar skilvirkni yfirbyggingar þeirra telja margir að Red bull muni standa sterkt að vígi í toppslagnum í ár með gúrú loftaflsins í sínum röðum. Hann sagði að ekkert væri öruggt þegar miklar breytingar ættu sér stað. „Tvímælalaust mun togna á rásmarkinu til að byrja með. Það gerist alltaf þegar reglur breytast, liðin lesa misjafnlega vel úr þeim, sum betur en önnur. Venjulega gera stóru liðin og aðstöðubetri það vel en það var þó ekki raunin 2009 þegar miklar breytingar áttu sér síðast stað. Þá lásum við og Brawn-liðið þær rétt,“ sagði Newey við bresku sjónvarpsstöðina Sky Sports í byrjun ársins.

Liðsstjóri Mercedes, Toto Wolff, segir lið sitt hafa komið sterkara frá keppnistíðinnin 2016 en þeim fyrri. Unnu ökumenn þess, Rosberg og Lewis Hamilton, sín á milli 19 mót af 21 og 20 ráspóla og þriðja árið í röð vann Mercedes bæði heimsmeistaratitil ökumanna sem bílsmiða.

Wolff segir að þrátt fyrir þetta sé ekkert gefið í formúlunni og verði liðið að búast við harðri samkeppni í ár.

Eigendaskipti

Miklar pólitískar breytingar munu að öllum líkindum eiga sér stað á vettvangi formúlu-1 með kaupum bandaríska fjarskiptafélagsins Liberty Media á íþróttinni, eða öllu heldur móðurfélagi hennar sem Delta Topco nefnist. Hafa samkeppnisyfirvöld lagt blessun sína yfir áformin en hluthafar munu greiða atkvæði um yfirtökuáætlunina í dag, 17. janúar. Alþjóðaakstursíþróttasambandið (FIA) á eftir að ljá málinu samþykki en Liberty vonast til að geta klárað yfirtökuna fyrir marslok. Hefur fyrirtækið boðað ýmsar breytingar í framtíðinni til að auka á vinsældir formúlunnar og gera hana fjölmiðlavænni.

Mótum ársins hefur þegar fækkað úr 21 í fyrra í 20 í ár með brottfalli þýska kappakstursins. Sú breyting verður á að vegna óánægju með að hefja keppni á eftir öryggisbíl í vætu eins og í Mónakó, Silverstone og Sao Paulo munu ökumenn stilla sér upp á rásmarkinu þegar blautar brautir hafa þornað nógsamlega til að vera taldar öruggar til keppni. Gæti það eftir sem áður þýtt að á undan ræsingu verði þeir að aka í nokkra hringi á eftir öryggisbíl. agas@mbl.is

Frá lokamóti ársins 2016, í Abu Dhabi. Nico Rosberg hjá …
Frá lokamóti ársins 2016, í Abu Dhabi. Nico Rosberg hjá Mercedes landaði þar heimsmeistaratitli ökumanna. AFP
Starfsmenn Mercedes-liðsins úða freyðandi guðaveig yfir Nico Rosberg og Vivian …
Starfsmenn Mercedes-liðsins úða freyðandi guðaveig yfir Nico Rosberg og Vivian Sibold konu hans er liðsmenn fögnuðu heimsmeistaratitli ökumanna sem Rosberg tryggði sér í lokamóti ársins, 27. nóvember sl.
Kimi Räikkönen á ferð á Ferrari-bílnum sem olli vonbrigðum og …
Kimi Räikkönen á ferð á Ferrari-bílnum sem olli vonbrigðum og var snöggtum slakari en 2015. Liðið vann ekki eitt einasta mót 2016.
Max Verstappen tók oftar fram úr en nokkur annar á …
Max Verstappen tók oftar fram úr en nokkur annar á vertíðinni 2016. Hér hleypir hann af stokkum hönnun á gallabuxum fyrir Pepe Jeans.
Sebastian Vettel stóð langt undir væntingum 2016 og lét mótlæti …
Sebastian Vettel stóð langt undir væntingum 2016 og lét mótlæti á brautinni hvað eftir annað fara töluvert í taugarnar á sér.
Nico Rosberg (t.v.) og Lewis Hamilton háðu grimmilega hildi frá …
Nico Rosberg (t.v.) og Lewis Hamilton háðu grimmilega hildi frá fyrsta móti til þess síðasta og unnu sín á milli 19 af 21 kappakstri.
Dekkin undir bíla formúlunnar breytast meira en sést hefur um …
Dekkin undir bíla formúlunnar breytast meira en sést hefur um árabil.
Jenson Button kvaddi keppni við vertíðarlok 2016 eftir 17 ár …
Jenson Button kvaddi keppni við vertíðarlok 2016 eftir 17 ár í Formúlu-1.
Red Bull var næstbesta liðið 2016.
Red Bull var næstbesta liðið 2016.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert