McLaren snýr baki við nafnahefð

Fernando Alonso í McLaren MP4-31 bílnum á liðinni keppnistíð.
Fernando Alonso í McLaren MP4-31 bílnum á liðinni keppnistíð. AFP

Nýir herrar sem tekið hafa yfir stjórn McLarenliðsins og losað sig við Ron Dennis hafa ákveðið að rjúfa fleiri hefðir og segja skilið við þá nafngift á bílunum sem verið hefur við lýði á fjórða áratug.

MP4 hefur verið það merki sem bílar liðsins hafa keppt undir frá 1981 og við það hefur svo verið bætt raðtölu, nýrri fyrir hvert ár sem liðið hefur.

Í ár hverfur hins vegar MP4-táknið og gengur liðið til móts við nýja keppnistíð með bíla undir heitinu MCL. Í staðinn fyrir að 2017-bíllinn beri heitið MP4-32 verður honum teflt fram sem  MCL32.

Dennis varð undir í valdabaráttu meðal eigenda McLarenfyrirtækisins og lét í nóvember sl. af starfi stjórnarformanns og forstjóra eftir að hafa gegnt hvoru tveggja í 36 ár. Hann var maðurinn á bak við MP4 heitið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert