Vettel klessti

Vettel á ferð á Ferrarifáknum.
Vettel á ferð á Ferrarifáknum.

Sebastian Vettel flaug út úr brautinni og klessti Ferrarifák sinn í Fiorano-brautinni á Ítalíu í gær, á fyrsta degi dekkjaprófana fyrir Pirelli. Hann slapp með smávægilegar skrámur úr óhappinu.

Um var að ræða fyrstu prófanir á nýjum regndekkjum sem brúkuð verða á komandi keppnistíð. Vettel ók umbreyttum bíl frá 2015 vertíðinni og til að líkja eftir akstri í rigningu var vatni dreift um brautina.

Svalt var í veðri er Vettel missti stjórn á bílnum í sjöundu beygju brautarinnar svo hann rann út úr brautinni og hafnaði á öryggisvegg. Skemmdist bíllinn það mikið að ekki var honum ekið meira þann daginn.

Fram að óhappinu hafði Vettel ekið 40 hringi á mismunandi dekkjagerðum, aðallega dekkjum sem verið er að þróa fyrir 2018-keppnistíðina, að sögn Pirelli. 

Mikil gagnrýni rigndi yfir Pirelli vegna regndekkjanna á 2016-keppnistíðinni en þau þóttu varasöm og ekki sérlega skilvirk í keppni í rigningu, til dæmis í næstsíðasta móti vertíðarinnar, í Sao Paulo í Brasilíu. Einna hörðust var gagnrýnin frá ökumönnum Ferrari. Hefur ítalska dekkjafyrirtækið lagt hart að sér í vetur að bæta úr þessum veikleika.

Kimi Räikkönen tók svo við akstrinum í dag, á seinni degi prófananna.

Reynsluakstur formúluliðanna á nýjum keppnisbílum hefst í Barcelona undir lok mánaðarins og fyrsta mót ársins fer svo fram 26. mars í Melbourne í Ástralíu.

Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá Vettel á ferð í Fiorano-brautinni í gærmorgun.

Kimi Räikkönen tók við akstrinum í dag.
Kimi Räikkönen tók við akstrinum í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert