„Engin ending ekkert afl“

Fernando Alonso ekur McLarenbílnum í Barcelona í dag.
Fernando Alonso ekur McLarenbílnum í Barcelona í dag. AFP

Fernando Alonso var ekki ánægður með McLarenbílinn eftir reynsluakstur dagsins. Sagði hann Hondavélina sem knýr hann áfram sé ótraust í endingu og aflvana. „Engin ending ekkert afl“ sagði hann og hefur augljóslega orðið fyrir vonbrigðum.

McLaren og Honda áttu erfiða daga í fyrra og hitteðfyrra og vandamálin elta liðið inn í nýtt keppnistímabil í ár.Vegna bilana hefur orðið að skipta um vél hvað eftir annað við æfingaaksturinn í Barcelona í þessari viku og þeirri síðustu.

Nöfn Alonso og félaga hans Stoffel Vandoorne hafa ekki verið ofarlega á lista yfir hröðustu hringi dag hvern.

Eftir sex daga akstur segir Alonso að eina vandamálið við McLarenbílinn sé Hondavélin. Hann segir ekki hafa verið hægt að botnkeyra bílinn til að fá vitneskju um hvort eitthvað í undirvagninum þurfi að bæta.

„Tilfinningin í bílnum er góð, hann lætur vel að stjórn og svarar öllum breytingum vel. Þar er allt í fína lagi. Ég er ánægður með jafnvægið í bílnum, ánægður með hvernig hann ræðst á beygjurnar og ég nýt þess að aka honum.

Hvað undirvagninn varðar held ég við stöndum öðrum ekki svo mjög að baki. Við glímum bara við eitt vandamál sem stendur og það er aflvélin. Endingin er ótraust og aflið vantar. Ég held við séum á 30 km/klst minni hraða á beina upphafskaflanum, á öllum beinu köflunum,“ segir Alonso.

Hann segist binda vonir við „mikil viðbrögð“ fyrir fyrsta kappakstur. „Við þurfum tvímælalaust að taka okkur tak og við verðum að bæta okkur. Allir í liðinu þurfa taka sig á og við verðum að sýna samstöðu og vinna náið saman, gera eitthvað mikið í málinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert