Finnarnir fljótastir

Finnarnir Kimi Räikkönen hjá Ferrari og Valtteri Bottas hjá Mercedes óku hraðast á fyrstu æfingu keppnishelgarinnar í Sostjí, en þar fer rússneski kappaksturinn fram á sunnudag. Báðir óku mun hraðar en liðsfélagar þeirra.

Besti hringur Räikkönens var 1:36,074 mínútur en Bottas var aðeins 45 þúsundustu úr sekúndu lengur í förum. Lewis Hamilton hjá Mercedes var 0,6 sekúndum lengur með hringinn en Räikkönen, en í fjórða og fimmta sæti hálfri sekúndu þar á eftir voru Max Verstappen hjá Red Bull og Sebastian Vettel hjá Ferrari.

Á einum hringnum missti Vettel stjórn á bíl sínum og snarsneri honum í 16.beygju, en slapp með skrekkinn.

Í sætum sex til tíu urðu - í þessari röð - Daniel Ricciardo hjá Red Bull, Sergio Perez hjá Force India, Felipe Massa og Lance Stroll hjá Williams og Esteban Ocon hjá Force India, en hann varð fyrir því að vélarhlífin losnaði af bíl hans og hafnaði á brautinni með þeim afleiðingum að æfingin var stöðvuð um stundarsakir.

Til marks um hversu ójöfn æfingin var þá var Ocon tveimur sekúndum lengur með hringinn en Räikkönen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert