Alonso ánægður þrátt fyrir brottfall

Fernando Alonso segir að þrátt fyrir að hafa fallið úr leik í Indy 500 kappakstrinum sé upplifun sín af kappakstrinum og mótinu í Indianapolis „ein sú besta á ferlinum“.  Á síðustu hringjunum af 200 gaf vélin sig í keppnisbíl hans.

Alonso var í keppni um fremstu sæti allan kappaksturinn út í gegn og var hvað eftir annað fremstur í fylkingu. Oft slóst hann þar við liðsfélaga sína hjá Andretti liðinu, Ryan Hunter-Reay og Alexander Rossi, sem vann kappaksturinn í fyrra.

Þegar 179 hringir voru að baki hægði bíll Alonso skyndilega á sér og ljóst að vélin var farin. Þrátt fyrir það klöppuðu mörg hundruð þúsundir áhorfenda fyrir honum er hann steig upp úr bílnum við brautarkant. Einn liðsfélagi hans til viðbótar, Japaninn Takuma Sato, ók til sigurs á lokahringjunum við mikinn fögnuð.

„Því miður, þetta er leitt,“ sagði Alonso við  ESPN stöðina eftir kappaksturinn. Ég held við hefðum verðskuldað að komast alla vega í mark og njóta innhringsins og allt það, en hver veit hvaða sæti hefðu verið möguleg,“ bætti hann við.

„Keppnin var skemmtileg og góð. Aflið í bílnum var gott, við vorum uppi meðal þeirra fremstu, þar af nokkrum sinnum í forystu. Það var óvænt  ánægja að koma hingað meðal þessara stóru nafna, helstu stórmenna í kappakstri í sporöskjulaga brautum og vera jafnvígur þeim,“ sagði Alonso.

Hann naut helgarinnar greinilega og gaf tilkynna að hann myndi koma aftur til keppni í Indy 500 síðar. „Auðvitað er alltof snemmt núna að segja eitthvað um það, ég var bara að klára þetta mót. Mér finnst ég samkeppnisfær. Snúi ég aftur þá bý ég að reynslunni úr þessum kappakstri og það verður auðveldar. Þetta var mjög skemmtileg reynsla. Þökk sé IndyCar, þökk sé Indianapolis og áhorfendum sendi ég mínar bestu þakkir því þetta hefur verið ein besta upplifunin á öllum keppnisferlinum,“ sagði Alonso.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert