Bara lokað hjá Red Bull

Fernando Alonso.
Fernando Alonso. AFP

Samningur Fernando Alonso við McLarenliðið rennur út í vertíðarlok og er hann sagður eiga í viðræðum við mörg lið sem freista þess að fá hann í sínar raðir.

Hann hefur gefið í skyn að hann gæti hugsað sér vistaskipti en hann segist þó ekki á förum til Red Bull, þar séu allar dyr lokaðar með langtíma samningum Daniels Ricciardo og Max Verstappen.

„Við skulum bíða og sjá, ég væri að ljúga ef ég segist vera með fastmótaða áætlun. Það er allt til viðræðu. Ég gæti farið til annars liðs, veit ekki hvort það yrði Mercedes eða eitthvað annað. Taki Renault upp á því að drottna, það veit ég ekki,“ hefur miðillinn Sport24 eftir Alonso.
 
„Hafi lið samband í júní eða júlí ætti ég ýmsa möguleika en það verður bara að setjast niður og ræða málin. Sennilega er Red Bull eina liðið þar sem hurðir eru lokaðar því það er með unga ökumenn á langtímasamningum.“

Alonso sagði framtíð sína í formúlunni ráðast líka af hvert nýir eigendur formúlunnar ætli að stefna með íþróttina. „Ég sé skrifað að þeir vilji fjölga mótunum í 25 en þegar ég hóf keppni voru þau 16 og nú eru þau 20. Verði niðurstaðan 25 mó´t hætti ég keppni,“ bætti hinn 35 ára gamli Alonso við en hann hefur unnið 32 formúlu-1 mót af þeim 275 sem hann hefur tekið þátt í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert