Hamilton vann léttilega

Lewis Hamilton hjá Mercedes var í þessu að vinna sigur í kanadíska kappakstrinum í Montreal. Þar í borg vann hann sinn fyrsta sigur í formúlu-1, árið 2007.

Sigurinn er sá sjötti sem Hamilton vinnur í Montreal og sá þriðji í röð. Liðsfélagi hans Valtteri Bottas varð annar en heilum 19,7 sekúndum á eftir og þriðji varðDaniel Ricciardo hjá Red Bull, en kappaksturinn er sá þriðji í röð sem hann hafnar í því sæti.

Niðurstaðan breytir stöðunni í stigakeppninni um bæði heimsmeistaratitil ökumanna og bílsmiða þar sem keppinautarnir Sebastian Vettel og Kimi Räikkönen hjá Ferrari urðu í fjórða og sjöunda sæti.

Vettel hóf keppni af öðrum rásstað en átti hrapallega ræsingu og féll niður í fjórða sæti fram að fyrstu beygju. Í henni braut Max Verstappen sneið af framvæng hans en Red Bull þórinn skaust eins og eldflaug úr fjórða sæti í annað á fyrstu metrunum.

Hamilton hóf keppni 25 stigum á eftir Vettel en eftir kappaksturinn hefur bilið minnkað í 12 stig,  eða 141:129. Þá endurheimti Mercedes forystuna í keppni liðanna frá Ferrari en þar munar nú átta stigum, 222:214.

Heimamaðurinn Lance Stroll keppti í fyrsta sinn í Montreal og vann sín fyrstu stig í formúlu-1 með níunda sæti. Fernando Alonso var á öruggri ferð til stiga þar til vélin brást honum tveimur hringjum rúmum frá endamarki. Fyrir bragðið hefur McLaren ekki enn unnið stig í ár.

Sergio Perez og  Esteban Ocon hjá Force India urðu í fimmta og sjötta sæti en líklegt er að eftirmál verði af akstri Perez sem þráfaldlega neitaði að hleypa liðsfélaga sínum fram úr, en franski ökumaðurinn virtist mun hraðskreiðari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert