Ánægður með fjórða besta bílinn

Nico Hülkenberg var einkar ánægður eftir belgíska kappaksturinn í hinni hröðu braut Spa-Francorchamps, en þar tók Renaultbíllinn enn framförum og varð fjórða fljótasta liðið.

Hülkenberg hóf keppni í sjöunda sæti á eftir ökumönnum Mercedes, Ferrari og Red Bull og færðist fram um eitt sæti er Max Verstappen hjá Red Bull féll úr leik. Endaði hann í sjötta sæti.

Þetta var í þriðja sinn á árinu sem Hülkenberg nær sjötta sæti á keppnistíðinni. Ýmsar uppfærslur hafa átt sér í Renaultbílnum síðustu vikur og kveðst Hülkenberg fara bjartsýnn til kappakstursins í Monza á Ítalíu um komandi helgi.

„Ég er ánægður og árangurinn kom mér þægilega á óvart,“ sagði Hülkenberg í framhaldi af keppninni í Spa. „Ræsingin var slök hjá mér en ég gat lagfært það í fyrstu beygju. Bíllinn var meðfærilegri en í tímatökunni og við vorum eina ferðina enn fjórða fljótasta liðið sem gerði okkur kleift að klára í sjötta sæti

Ég átti í frábærri rimmu við Fernando [Alonso] og þar vorum við allir þrír á nálum er við vorum samsíða Esteban [Ocon]. Ég óttaðist að það myndi ekki rætast úr því en sem betur fer fór allt á besta veg og þetta var frábær glíma. Sjálfstraustið er mikið fyrir Monza,“ sagði hann.

Þrátt fyrir árangur Hülkenberg er Renault í áttunda sæti í keppni liðanna en er þó aðeins 11 stigum á eftir Williams sem er í fimmta sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert