Fyrsti ráspóll Hamiltons í Suzuka

Lewis Hamilton á Mercedes var í þessu að vinna sinn 71. ráspól á ferlinum og þann fyrsta í Suzukabrautinni í Japan. Annar varð liðsfélagi hans Valtteri Bottas og þriðji Sebastian Vettel á Ferrari. Bottas færist aftur eftir rásmarkinu eins og fjórir ökumenn aðrir af tæknilegum ástæðum.

Hamilton var öryggið uppmálað í öllum lotum tímatökunnar og komust aðrir ökumenn ekki með tærnar þar sem hann hafði hælana. Setti hann tvisvar brautarmet á leiðinni á ráspólinn. 

Í sætum fjögur til tíu - í þessari röð - urðu Max Verstappen og Daniel Ricciardo á Red Bull, Kimi Räikkönen á Ferrari, Esteban Ocon og Sergei Perez á Force India, Felipe Massa á Williams og Fernando Alonso á McLaren.

Bottas, Räikkönen, Alonso, Carlos Sainz á Toro Rosso og Jolyon Palmer á Renault þurfa sæta afturfærslu á rásmarki vegna breytinga á bílunum eftir æfingarnar í gær.

Alonso færist aftur um 35 sæti þar sem skipta varð um vél í bíl hans vegna vökvakerfisleka. Það sem af er vertíðar hefur hann nú brúkað átta vélarblokkir, tíu hverfilblásara (túrbó), tíu MGU-H túrbótengi og átta MGU-K tvinntengi, sjö orkugeymslur og sex rafeindastýringar. Á vertíðinni mega ökumenn aðeins nota fjóra af hverjum þessara íhluta aflrásarinnar eigi þeir að sleppa við refsingar.

Bottas og Räikkönen færast aftur um fimm sæti hvor vegna ótímabærra gírkassaskipta. Jolyon Palmer færist aftur um 20 sæti fyrir að skipta um vélarblokk, þá fimmtu á árinu, sjötta hverfilblásarann, og sjötta MGU-H. Loks færist Sainz einnig aftur um 20 sæti vegna vélarskipta.

Vegna þessa hefur Bottas keppni af sjöunda rásstað, Räikkönen af þeim ellefta, Palmer 18., Sainz í 19. og Alonso í því tuttugasta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert